Heimir hættir og Magnús tekur við

Heimir Hallgrímsson, þjálfari ÍBV.
Heimir Hallgrímsson, þjálfari ÍBV. mbl.is

Heimir Hallgrímsson, þjálfari ÍBV, mun hætta störfum hjá félaginu í haust og samkvæmt heimildum mbl.is í Vestmannaeyjum er það að frumkvæði Heimis. Magnús Gylfason staðfesti á Stöð2 Sport rétt í þessu að hann muni taka við ÍBV-liðinu þegar þar að kemur.

Heimir hefur haldið um stjórnartaumana hjá ÍBV í nokkur ár. Hann kom liðinu upp í efstu deild haustið 2008 og síðan þá hefur liðinu gengið afar vel. ÍBV hélt sæti sínu í deildinni 2009 þrátt fyrir hrakspár og hefur verið í bullandi baráttu um Íslandsmeistaratitilinn síðustu tvö árin.

Magnús Gylfason hefur þjálfað Hauka í 1. deildinni í sumar en hann hefur áður stýrt ÍBV.

Eyjamenn sendu frá sér fréttatilkynningu og hún er eftirfarandi:

„ÍBV mun fá góðan liðsstyrk undir lok Íslandsmótsins, því Magnús Gylfason mun bætast við í þjálfarateymi ÍBV í síðustu leikjum mótsins. Magnús er Eyjamönnum vel kunnugur því hann þjálfaði liðið á árunum 2003 og 2004, seinna árið náði ÍBV einmitt mjög góðum árangri og endaði í 2. sæti deildarinnar.  Magnús mun síðan taka við þjálfun ÍBV-liðsins að tímabili loknu af Heimi Hallgrímssyni.  

Heimir Hallgrímsson hefur þjálfað ÍBV frá 2004, og er því að ljúka sínu 6. tímabili sem þjálfari liðsins. Hann hefur náð frábærum árangri með liðið og unnið gríðarlega ósérhlífið starf fyrir félagið.  Heimir óskaði sjálfur eftir því að fá að stíga til hliðar að tímabili loknu og gefa nýjum þjálfara tækifæri til að setja sig strax inn í hlutina, svo að hægt sé að byrja strax að undirbúa næsta tímabil þegar þessu lýkur.  Heimir Hallgrímsson mun stýra liðinu út tímabilið, enda hefur hann náð frábærum árangri með liðið í sumar líkt og undanfarin ár. “

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert