Tryggvi Guðmundsson, sóknarmaðurinn skæði í liði ÍBV, er klár í slaginn og verður með Eyjamönnum í leiknum gegn Grindvíkingum í lokaumferð Pepsi-deildarinnar í Eyjum á morgun. Tryggvi meiddist á höfði í leiknum gegn FH um síðustu helgi. Hann þurfti að yfirgefa völlinn alblóðugur á höfði eftir 17 mínútna leik en sauma þurfti 18 spor í kappann sem kallar ekki allt ömmu sína.
,,Ég er búinn að fá grænt ljós á að spila. Ég talaði við Hjalta lækni á æfingu í gær og hann sagði að þetta yrði ekkert mál. Það verður búið um höfuðið svipað og gert var hjá Rasmus fyrr í sumar þó svo að hann hafi verið með fjögur spor í hausnum en ég átján.
Svo er ég með til taks hlífðarhjálm sem ég fékk hjá FH-ingnum Sverri Garðarssyni. Ég er búinn að prófa hann en hann er svolítið óþægilegur því hann sker skurðinn á höfðinu. Ég veit ekki hvort ég kem til með að nota hann,“ sagði Tryggvi við mbl.is í morgun en hann fór til Vestmannaeyja í gær eins og leikmenn Grindavíkur og dómararnir.
Eyjamenn misstu af Íslandsmeistaratitlinum með tapinu á móti FH um síðustu helgi. Þeir féllu niður í þriðja sæti og eiga það á hættu að enda í fjórða sæti og missa þar að leiðandi af Evrópusæti. Stig á móti Grindavík á morgun tryggir ÍBV Evrópusæti en tapi þeir leiknum og Stjarnan hefur betur á móti Breiðablik taka Garðbæingar Evrópusætið á kostnað ÍBV.
,,Við verðum að klára mótið með stæl. Eftir að Heimir tilkynnti að hann myndi hætta með liðið var eins og botninn dytti svolítið úr þessu hjá okkur. Ég er ekki að segja að þetta hangi eitthvað saman en við erum núna komnir með bakið upp að vegg og þurfum að taka stig á móti Grindavík til að taka Evrópusætið. Það er nú þess vegna sem ég ætla mér að spila. Ef leikurinn skipti ekki máli myndi ég líklega ekki spila,“ sagði Tryggvi.
Tryggvi jafnaði á dögunum markamet Inga Björns Albertssonar í efstu deild en báðir hafa skorað 126 mörk.
,,Ég veit að það trúir mér enginn en eftir að ég jafnaði markametið þá er ég alveg rólegur. Ég veit að ég mun spila áfram í efstu deild á næsta ári og ég trúi ekki öðru en að ég geri að minnsta kosti eitt mark næsta sumar. Ég er því ekkert að stressa mig á þessu,“ sagði Tryggvi.