Ólafur Örn Bjarnason hefur ákveðið að stíga til hliðar sem þjálfari úrvalsdeildarliðs Grindavíkur í knattspyrnu en hann mun leika áfram með liðinu. Þetta kemur fram á vef Grindvíkinga í dag.
Ólafur tók við þjálfun Grindavíkurliðsins fyrir tímabilið og samhliða þjálfuninni lék hann með liðinu. Fram kemur á vef Grindvíkinga að Ólafur vilji einbeita sér að því að spila með liðinu á næstu leiktíð en hefur fullan hug á því að halda áfram þjálfun í framtíðinni.
Stjórn knattspyrnudeildar Grindavíkur virðir ákvörðun Ólafs Arnar og fagnar því að hann vilji halda áfram sem leikmaður félagsins. Leit að nýjum þjálfara liðsins er þegar hafin.