Zoran Daníel Ljubicic var í dag ráðinn þjálfari karlaliðs Keflavíkur í knattspyrnu. Zoran tekur við starfi Willums Þórs Þórssonar sem stýrt hefur Keflavíkurliðinu undanfarin tvö ár en ákveðið var í síðustu viku að framlengja ekki samninginn við hann.
Keflvíkingar vonast til að Gunnar Oddsson verði aðstoðarmaður Zorans en Gunnar liggur undir feldi og hefur ekki tekið ákvörðun um það hvort hann verði aðstoðarþjálfari en hann var í því hlutverki hjá Keflvíkingum síðari hluta nýliðins tímabils.
Zoran, sem er 44 ára gamall, er öllum hnútum kunnugur hjá Keflavík. Hann lék með Suðurnesjaliðinu frá 1999 til 2004 og var fyrirliði liðsins þegar það varð bikarmeistari árið 2004. Síðustu tvö ár hefur Zoran Daníel þjálfað 2. flokk Keflavíkur og undir hans stjórn varð liðið bikarmeistari á dögunum.
Zoran lék yfir 100 leiki í efstu deild í gömlu Júgóslavíu með liði Sarajevo og spilaði síðan eitt tímabil í Malasíu áður en hann flutti til Íslands árið 1992. Hann gekk þá til liðs við nýstofnað lið HK og fór með því upp um tvær deildir á fyrstu tveimur árunum. Síðan lék hann í efstu deild með ÍBV, Grindavík og Keflavík, og lauk ferlinum sem leikmaður árið 2005 þegar hann var spilandi þjálfari Völsungs í 1. deild. Hann kom reyndar við sögu í einum leik með Njarðvík í 2. deild árið eftir.
Zoran, sem hefur verið íslenskur ríkisborgari um árabil, lék samtals 237 deildaleiki hér á landi, þar af 169 í efstu deild, og skoraði í þeim 44 mörk.