Kjartan Henry Finnbogason, sóknarmaðurinn skæði í liði Íslands- og bikarmeistara KR, er kominn heim frá Englandi en hann var til skoðunar hjá enska 1. deildar liðinu Brighton. Áður hafði Kjartan verið í sömu erindagjörðum hjá danska úrvalsdeildarliðinu Nordsjælland.
„Dvölin hjá Brighton var bara mjög fín. Ég átti bara að vera í þrjá daga en ég var beðinn um að vera lengur. Mér gekk mjög vel og leist vel á félagið. Ég átti samtal við stjórann Gustavo Poyet áður en ég hélt heim á leið. Hann sagði mér að ég hefði staðið mig vel og væri áhugaverður kostur en það gerist ekkert í þessu strax þar sem félagaskiptaglugginn opnast ekki fyrr en í janúar,“ sagði Kjartan Henry við Morgunblaðið í gær.
Kjartan sagði vel koma til greina að fara til liðsins ef honum byðist það.
„Brighton er stór klúbbur, bærinn er flottur, stjórinn afar viðkunnanlegur og enska 1. deildin er talin vera sjötta sterkasta deildin í Evrópu. Það væri því spennandi að fara til félagsins en ég ætla ekki að gera mér of miklar vonir. Ég mun bara bíða og sjá,“ sagði Kjartan Henry.
Kjartan segir að fleiri möguleikar séu í boði fyrir sig. „Ég er búinn að fá nóg af reynsluferðum í bili. Dóttir mín verður eins árs á laugardaginn og ég er varla búinn að vera heima síðan Íslandsmótinu lauk,“ sagði Kjartan Henry, sem átti frábært tímabil með meisturunum í sumar. gummih@mbl.is