Þrír ungir leikmenn úr úrvalsdeildarliði ÍBV í knattspyrnu eru komnir til Crewe í Englandi þar sem þeir verða við æfingar næstu vikuna hjá Crewe Alexandra eftir því sem vefmiðillinn fótbolti.net greinir frá.
Þetta eru þeir Þórarinn Ingi Valdimarsson, Guðmundur Þórarinsson og Brynjar Gauti Guðjónsson. Þórarinn Ingi og Guðmundur voru báðir í U21-landsliðshópnum sem valinn var fyrir leikinn við England síðastliðinn fimmtudag og Brynjar Gauti hefur verið viðloðandi þann landsliðshóp.
ÍBV og Crewe, sem leikur í fjórðu efstu deild á Englandi, hafa átt í góðu samstarfi undanfarin ár allt frá því að Ian Jeffs kom frá Crewe ungur að árum. Leikmenn á borð við Matt Garner, Jordan Connerton og Kelvin Mellor hafa til að mynda komið frá Crewe til að styrkja lið ÍBV.