Eyjamenn hafa samið við enska knattspyrnumanninn Aaron Spear um að leika áfram með þeim næstu tvö árin, eða til loka keppnistímabilsins 2013.
Spear er 18 ára gamall sóknarmaður og kom til ÍBV í lok júlí frá Newcastle United. Hann var drjúgur með Eyjamönnum seinni hluta tímabilsins, lék 11 leiki með þeim í úrvalsdeildinni og einn í bikarnum og skoraði 6 mörk. Þar á meðal jöfnunarmarkið í uppgjörinu gegn KR í Vesturbænum, 2:2, í uppbótartíma leiksins. Fimm markanna gerði Spear í síðustu fimm umferðum deildarinnar.
Spear fór til Þýskalands eftir tímabilið þar sem hann var til reynslu hjá Stuttgart en ákvað síðan að skrifa undir hjá Eyjamönnum.