Skagamenn, nýliðarnir í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, unnu góðan sigur á FH, 4:1, í Akraneshöllinni í dag, í fyrstu umferðinni á Fótbolta.net-mótinu, nokkurskonar Faxaflóamóti meistaraflokks karla.
Jón Vilhelm Ákason (vítaspyrna), Ármann Smári Björnsson og Hallur Flosason komu ÍA í 3:0 á fimm mínútna kafla, sitt hvorum megin við leikhlé, og í kjölfarið fékk Guðmann Þórisson, varnarmaður FH, rauða spjaldið í fyrsta mótsleik sínum með liðinu. Ólafur Valur Valdimarsson bætti við marki fyrir ÍA áður en Björn Daníel Sverrisson svaraði fyrir FH úr vítaspyrnu rétt fyrir leikslok.
Breiðablik vann Keflavík, 2:1, í Reykjaneshöllinni. Elfar Árni Aðalsteinsson, sem Blikar fengu frá Völsungi í vetur, kom þeim yfir en Ásgrímur Rúnarsson jafnaði fyrir Keflvíkinga. Sverrir Ingi Ingason skoraði sigurmark Kópavogsbúa úr vítaspyrnu.
Stjarnan og Selfoss skildu jöfn, 2:2, í Kórnum í Kópavogi. Birgir Rafn Baldursson og Bjarki Páll Eysteinsson komu Garðbæingum í 2:0. Viðar Örn Kjartansson minnkaði muninn úr vítaspyrnu korteri fyrir leikslok, og á 87. mínútu jafnaði Ólafur Karl Finsen fyrir Selfyssinga, en hann kom einmitt til þeirra frá Stjörnunni í vetur.
Síðasti leikur dagsins stendur yfir í Kórnum en þar eigast við ÍBV og Grindavík.