Halldór Orri óhress með Stjörnuna

Halldór Orri Björnsson í leik með Stjörnunni.
Halldór Orri Björnsson í leik með Stjörnunni. Kristinn Ingvarsson

Halldór Orri Björnsson, sóknartengiliðurinn úr Stjörnunni, er afar óhress með forráðamenn Garðabæjarfélagsins, eftir því sem haft er eftir honum í norska netmiðlinum Sandnesposten í dag.

Sandnes Ulf, sem vann sig uppí norsku úrvalsdeildina í haust, vildi fá Halldór Orra í sínar raðir en er ekki tilbúið til að greiða þá upphæð sem Stjarnan vill fá fyrir hann.

„Ég er mjög vonsvikinn því ég hlakkaði mikið til að taka nýtt skref á mínum ferli. Satt best að segja er ég steinhissa á því hversu háa upphæð Stjarnan vill fá fyrir mig. Samningurinn minn rennur jú út í október,“ segir Halldór við Sandnesposten en vill ekki nefna upphæðina, en netmiðillinn telur að nokkur hundruð þúsund norskra króna beri á milli félaganna.

„Nú get ég ekki annað en einbeitt mér að því að eiga gott tímabil með Stjörnunni. Vonandi fæ ég tækifæri til að spila í stærri deild eftir að samningur minn þar rennur út í haust,“ segir Halldór.

Tom Rune Espedal, framkvæmdastjóri Sandnes Ulf, segir að ekki verði aðhafst meira í máli Halldórs Orra. „Stjarnan vildi fá milljónir fyrir hann, þannig að þið getið hæglega sagt að mikið hafi borið á milli,“ segir Espedal.

Til skýringar samsvarar ein milljón norskra króna rúmlega 21 milljón íslenskra króna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert