Hjörtur Hermannsson, fyrirliði drengjalandsliðsins í knattspyrnu og leikmaður meistaraflokks Fylkis, skrifaði í morgun undir þriggja og hálfs árs samning við hollenska stórliðið PSV Eindhoven.
Hjörtur, sem er miðjumaður og varð 17 ára í febrúar, verður þó áfram í röðum Árbæjarliðsins fram á sumar þar sem hann fær ekki leikheimild í Hollandi fyrr en á miðju sumri. Hann leikur því væntanlega með Fylki í fyrstu umferðum Íslandsmótsins.
„Það er frábært að þetta skuli vera frágengið, mér líst afar vel á mig hjá PSV og félagið stóðst allar mínar væntingar og meira en það,“ sagði Hjörtur við mbl.is að undirskriftinni lokinni.
„Ég reikna með að fara í U19 ára lið félagsins í sumar og jafnframt spila með varaliðinu, og svo kemur framhaldið bara í ljós, og er undir mér komið. Ég er að sjálfsögðu afar spenntur fyrir þessu og tilhlökkunin er mikil. En þar sem ég fæ ekki leikheimildina fyrr en í sumar þótti hentugast að ég yrði áfram heima, kláraði skólann í vor og spilaði væntanlega eitthvað með Fylki áður en ég færi út,“ sagði Hjörtur.
Hann vann sér sæti í byrjunarliði Fylkis seinni hluta síðasta sumars, þá 16 ára gamall, og lék níu leiki í úrvalsdeildinni og skoraði eitt mark. Hann hefur leikið 17 leiki með U17 ára landsliðinu og 8 með U19 ára landsliðinu og er fyrirliði yngra liðsins sem er á leið í milliriðil Evrópukeppninnar eftir nokkrar vikur.
Hjörtur verður annar Íslendingurinn í röðum PSV en Eiður Smári Guðjohnsen hóf þar atvinnuferilinn haustið 1994 og var þar í fjögur ár.