Brann vill fá Hannes Þór að láni

Hannes Þór Halldórsson með Íslandsbikarinn
Hannes Þór Halldórsson með Íslandsbikarinn mbl.is/Árni Sæberg

Norska knattspyrnufélagið Brann hefur samkvæmt öruggum heimildum mbl.is sett sig í samband við Íslands- og bikarmeistara KR þar sem það hefur óskað eftir því að fá markvörðinn Hannes Þór Halldórsson að láni.

Brann vill fá Hannes að láni í einn mánuð þar sem markvörður liðsins, Piotr Leciejewski, varð fyrir meiðslum í leik Brann og Rosenborg í 1. umferð norsku úrvalsdeildarinnar um síðustu helgi.

KR-ingar eru að kanna lagalegu hliðina á því hvort hægt sé að lána Hannes í einn mánuð og hafa sett sig í samband við UEFA. Verði af lánssamningnum myndi Hannes spila 4-5 leiki með Brann-liðinu en yrði svo kominn aftur í herbúðir Vesturbæjarliðsins áður en flautað verður til leiks í Pepsi-deildinni í byrjun maí.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka