Skagamenn munu ekki taka þátt í úrslitakeppni Lengjubikars karla í knattspyrnu síðar í þessum mánuði, enda þótt þeir séu ósigraðir í riðlakeppninni og þegar búnir að tryggja sér þátttökuréttinn í átta liða úrslitunum.
Þórður Þórðarson þjálfari ÍA staðfesti þetta við Fótbolta.net í dag. Ástæðan er sú að Skagamenn eru á förum til Spánar í æfingaferð, verða þar þegar átta liða úrslitin eru leikin og verða ekki komnir til landsins þegar undanúrslitin verða spiluð.
Þórður segir í viðtali við Fótbolta.net að um mistök sé að ræða, bæði hjá KSÍ við niðurröðun á mótinu og hjá Skagamönnum að átta sig ekki á þessari stöðu. Þeir hefðu tilkynnt á sínum tíma hvenær þeirra æfingaferð væri á dagskrá, og síðustu daga hefði komið í ljós að þetta gengi ekki upp.
„Við segjum okkur því úr þessum úrslitum og finnum okkur góða æfingaleiki í staðinn," segir Þórður við Fótbolta.net.
Skagamenn mæta Keflvíkingum í síðasta leik sínum í riðlakeppninni annað kvöld, og það verður því þeirra lokaleikur í mótinu í ár. ÍA er með 16 stig og Keflavík 15 í tveimur efstu sætum 2. riðils.
KSÍ hefur ekkert gefið út um málið en þetta þýðir væntanlega að öll liðin sem enda í þriðja sæti riðlanna þriggja fara í átta liða úrslitin, ekki tvö af þremur.