Grindvíkingar hafa fengið til liðs við sig tvo breska knattspyrnumenn fyrir átökin í sumar en það eru Skotinn Gavin Morrison og Englendingurinn Jordan Edridge. Guðjón Þórðarson, þjálfari Grindvíkinga, staðfesti þetta á Fótbolta.net í dag.
Morrison er 22 ára gamall miðjumaður og er á mála hjá skoska úrvalsdeildarliðinu Inverness, sem lánar hann til Grindvíkinga í sumar. Hann á að baki 17 leiki með liðinu í skosku úrvalsdeildinni, þar af fjóra á þessu keppnistímabili.
Edridge er rúmlega tvítugur miðjumaður eða bakvörður sem hefur spilað með enska utandeildaliðinu New Mills í vetur. Hann var áður leikmaður Chesterfield í ensku D-deildinni.