Nýliðar Skagamanna tefldu fram flestum uppöldum leikmönnum í fyrstu umferð Pepsi-deildarinnar í knattspyrnu. Níu af þeim þrettán sem klæddust gula og svarta búningnum í sigurleiknum gegn Breiðabliki á Kópavogsvelli á sunnudagskvöldið eru heimamenn á Akranesi.
Í fyrra var það einmitt Breiðablik sem var með flesta uppalda leikmenn í fyrstu umferðinni, ellefu af fjórtán, en nú er Kópavogsliðið í öðru sæti með átta heimamenn af þeim 14 sem þátt tóku í leiknum gegn ÍA.
Í byrjunarliði ÍA voru sjö heimamenn, Blikinn Kári Ársælsson, Hornfirðingurinn Ármann Smári Björnsson og svo Englendingarnir Mark Doninger og Gary Martin. Inná komu Skagamennirnir Jón Vilhelm Ákason, sem gerði sigurmarkið, og Ólafur Valur Valdimarsson.
Á töflu í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag má sjá, að hlutfall uppalinna leikmanna er afar mismunandi hjá liðunum tólf í deildinni í þessari fyrstu umferð. Þar er hvert lið greint útfrá uppöldum leikmönnum, öðrum íslenskum leikmönnum og erlendum leikmönnum.
Sjá nánar um þetta mál í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.