Annað vítið var rugl að mati Magnúsar

Magnús Gylfason
Magnús Gylfason mbl.is/Golli

Magnús Gylfason, þjálfari ÍBV, var nokkuð ánægður með leik sinna manna á KR-vellinum í kvöld en liðið þurfti að sætta sig við 3:2 tap gegn Íslandsmeisturunum.

„Ég var bara mjög sáttur við spilamennsku míns liðs. Við vorum varkárir í fyrri hálfleik og lokuðum á þá. Við vorum svolítið aftarlega og gáfum ekki svæði á bak við okkur. Við gerðum það sem við áttum að gera þar til við gáfum þeim þetta fyrsta víti. Það var náttúrlega hrikalegt að fara með 0:2 inn í hálfleik. Við komum sterkir til baka og jöfnuðum. Þá virtist allt vera í góðum málum og við vorum að mér fannst líklegri til að bæta við þriðja markinu en þá kom þriðja vítið. Þá var þetta orðið ennþá erfiðara en við fengum víti til að jafna en það tókst ekki,“ sagði Magnús við mbl.is að leiknum loknum.

Ekki var hjá því komist að fiska eftir skoðunum Magnúsar á vítaspyrnudómunum þar sem öll þrjú mörk KR-inga komu úr vítaspyrnum. „Í fyrsta lagi fannst mér við sjálfir vera klaufar í fyrsta vítinu en ég held ég sé nokkuð öruggur um að annað vítið sé klárlega rugl. Í fyrsta lagi sparkar hann boltanum upp í höndina á manni og það er ekki hendi fyrir mér. Það hlýtur að vera bolti í hönd. Eins og stendur klárlega í reglunum þá á ekki að dæma á það. Svo var hann fyrir utan teig. Þriðja vítið sá ég ekki nógu vel,“ sagði Magnús ennfremur við mbl.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert