Heldur sigurganga Skagamanna áfram?

Jóhannes Karl Guðjónsson er í lykilhlutverki með Skagamönnum.
Jóhannes Karl Guðjónsson er í lykilhlutverki með Skagamönnum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fjórir leikir fara fram í 4. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í dag og verður fróðlegt að sjá hvort nýliðar Skagamanna haldi sigurgöngu sinni áfram.

Klukkan 16 verður flautað til leiks í viðureign ÍBV og Fylkis í Eyjum. Bæði lið eru án sigurs í deildinni. Fylkir hefur 2 stig en Eyjamenn eru á botninum ásamt Grindavík með 1 stig.

Klukkan 19.15 hefjast tveir leikir. ÍA og Keflavík mætast á Akranesi og Valur og KR að Hlíðarenda. Skagamenn hafa unnið alla þrjá leiki sína og eru einir á toppnum en Keflavík hefur 4 stig.

Íslandsmeistarar KR-inga eru með 5 stig eftir að hafa landað sínum fyrsta sigri gegn ÍBV í síðustu umferð en Valsmenn, sem töpuðu fyrir Blikum í síðustu viku, eru með 6 stig.

Klukkan 20 hefst svo leikur FH og Breiðabliks í Kaplakrika. FH-ingar eru taplausir og er með 7 stig í öðru sæti en Blikar sem unnu sinn fyrsta leik þegar þeir höfðu betur gegn Val hafa 4 stig.

Tveir síðustu leikir 4. umferðar fara síðan fram annað kvöld þegar Fram mætir Selfossi og Grindavík tekur á móti Stjörnunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert