Atli Guðnason, sóknarmaðurinn knái í liði FH, hefur sýnt gamalkunna takta með Hafnarfjarðarliðinu í upphafi Íslandsmótsins og í sigurleik FH-inga gegn Breiðabliki á sunnudagskvöldið átti Atli virkilega góðan leik og er leikmaður 4. umferðar í Pepsi-deild karla að mati íþróttafréttamanna Morgunblaðsins.
Atli er efstur í einkunnagjöf Morgunblaðsins en hann hefur fengið flestu M-in fyrir frammistöðu sína, fimm talsins, fyrir fyrstu fjóra leikina.
„Ég hef bara fundið mig vel í upphafi móts og hef verið ánægður með eigin spilamennsku en er samt ánægðari með gengi liðsins og hvernig allir leikmenn hafa spilað. Vörnin hefur smollið vel saman og það hjálpar mikið til. Úrslitin í fyrsta leiknum voru vonbrigði, síðan komu tveir leikir þar sem gamla góða þolimæðin og seiglan var til staðar og við náðum að innbyrða sigra og síðan kom flottur leikur á móti Blikunum,“ sagði Atli í samtali við Morgunblaðið.
Það er þétt leikið í deildinni þessa dagana og í kvöld verða Atli og samherjar hans í eldlínunni í Frostaskjólinu þegar þeir heimsækja Íslandsmeistara KR í fyrsta leik 5. umferðar í sannkölluðum stórleik.
„Þetta verður alvöruleikur og ég vonast að sjálfsögðu eftir FH-sigri. Það er mikið í húfi fyrir bæði lið og vonandi verður bara mikil og góð stemning á leiknum,“ segir Atli.
Meiðsli plöguðu Atla nær allt undirbúningstímabilið í fyrra og segir hann að það hafi haft áhrif á spilamennsku sína.
„Ég var meiddur í náranum alveg fram í mars í fyrra og þegar maður er svona lengi meiddur þá er ansi erfitt og varla hægt að spila vel. Undirbúningstímabilið fyrir tímabilið í fyrra fór nánast alveg í súginn og fyrir vikið var formið ekki nógu gott. Ég var kannski fjóra til fimm daga að ná mér eftir leiki. En það var allt annað uppi á teningnum í vetur. Ég spilaði flestalla leikina og náði að æfa mjög vel og er því í fínu formi í dag,“ sagði Atli.
Sjá lengra viðtal við Atla í Morgunblaðinu í dag, ásamt úrvalsliði 4. umferðar og ýmsum fróðleik um deildina.