Eyjamenn skoruðu fjögur mörk á síðustu 20 mínútunum og sigruðu Stjörnuna, 4:1, í úrvalsdeild karla í fótbolta, Pepsi-deildinni, á Hásteinsvelli í Vestmannaeyjum í kvöld. Þar með vann ÍBV sinn fyrsta sigur en Stjarnan tapaði sínum fyrsta leik, og þá sló Tryggvi Guðmundsson markametið í efstu deild þegar hann skoraði þriðja mark ÍBV. Þetta var hans 127. mark í deildinni frá upphafi en Ingi Björn Albertsson hafði átt metið frá 1987 og Tryggvi jafnaði það síðasta haust, einnig í leik gegn Stjörnunni.
Leikurinn var markalaus í 65 mínútur en þá skoraði Alexander Scholz fyrir Stjörnuna. ÍBV brást hart við því, Brynjar Gauti Guðjónsson jafnaði á 71. mínútu, Christian Olsen skoraði, 2:1, á 74. mínútu og síðan Tryggvi beint úr aukaspyrnu á 76. mínútu. Ian Jeffs innsiglaði síðan sigurinn með marki í uppbótartíma.
Stjarnan er áfram í 4. sætinu með 9 stig en ÍBV lyfti sér uppfyrir Breiðablik og í 10. sætið með 5 stig. Fyrir neðan eru Breiðablik með 4 stig og Grindavík með 2 stig.
Lið ÍBV: Abel Dhaira - Arnór Eyvar Ólafsson, Brynjar Gauti Guðjónsson, Rasmus Christiansen, Matt Garner - Tonny Mawejje, George Baldock, Víðir Þorvarðarson, Guðmundur Þórarinsson, Christian Olsen, Tryggvi Guðmundsson.
Varamenn: Gunnar Már Guðmundsson, Yngvi Magnús Borgþórsson, Aaron Spear, Ragnar Leósson, Eyþór Helgi Birgisson, Guðjón Orri Sigurjónsson (M), Ian Jeffs.
Lið Stjörnunnar: Ingvar Jónsson - Jóhann Laxdal, Alexander Scholz, Baldvin Sturluson, Hörður Árnason - Daníel Laxdal, Mads Laudrup, Atli Jóhannsson - Kennie Chopart, Gunnar Örn Jónsson, Halldór Orri Björnsson.
Varamenn: Tryggvi S. Bjarnason, Hilmar Þór Hilmarsson, Bjarki Páll Eysteinsson, Sindri Már Sigurþórsson, Snorri Páll Blöndal, Garðar Jóhannsson, Arnar Darri Pétursson (M).