Þrír af fjórum leikjunum í átta liða úrslitum bikarkeppni karla í knattspyrnu, Borgunarbikarins, fara fram í dag og kvöld. Þar ber hæst stórleik ÍBV og KR sem eigast við á Hásteinsvellinum klukkan 16.00.
KR-ingar eru ríkjandi bikarmeistarar og hafa virkilega þurft að hafa fyrir því að verja titilinn því þeir unnu Skagamenn í 32ja liða úrslitum og Breiðablik í 16-liða úrslitum. ÍBV fór aðeins auðveldari leið og vann fyrstudeildarlið Víkings í Ólafsvík og Hattar frá Egilsstöðum. Eyjamenn hafa verið á miklum skriði og unnið sex leiki í röð í deild og bikar, en töpuðu síðan Evrópuleik í Dublin á fimmtudaginn.
Bæði lið eru án lykilmanna. Hjá ÍBV eru Brynjar Gauti Guðjónsson og George Baldock báðir í leikbanni og Christian Olsen verður væntanlega ekki með vegna meiðsla. Kjartan Henry Finnbogason, markahæsti leikmaður KR, er í banni en er auk þess meiddur þannig að hann hefði ekki spilað.
Tveir leikir hefjast síðan klukkan 19.15, báðir í Reykjavík, þar sem fyrstudeildarlið fá úrvalsdeildarlið í heimsókn. Víkingur og Grindavík eigast við á Víkingsvellinum og Þróttur fær Selfoss í heimsókn á Valbjarnarvöllinn.
Fjórði og síðasti leikurinn fer síðan fram annað kvöld, mánudagskvöld, þegar Stjarnan og Fram eigast við í Garðabæ.
Fylgst verður með öllum bikarleikjunum í beinum lýsingum hér á mbl.is.