Botnlið Grindavíkur í Pepsideild karla í knattspyrnu verður án þeirra Alexanders Magnússonar og Scott Ramsay gegn Fylki á mánudagskvöld en þeir voru í gær úrskurðaðir í eins leiks bann vegna fjögurra gulra spjalda.
Samuel Tillen úr Fram verður í banni gegn ÍBV á sunnudag af sömu sökum, og Blikinn Renee Troost missir af leiknum við Stjörnuna á mánudaginn.
Selfyssingurinn Endre Ove Brenne fékk eins leiks bann vegna rauða spjaldsins sem hann fékk gegn Stjörnunni í síðustu umferð Pepsideildarinnar en hann tók út bannið í bikarleiknum við Þrótt R.
Þóra Margrét Ólafsdóttir frá Selfossi var eini leikmaður Pepsideildar kvenna sem fékk bann en hún missir af leik við KR eftir viku vegna fjögurra gulra spjalda.