KR-ingar gátu með sigri á Keflavík í gær í Pepsi-deild karla í knattspyrnu sett pressu á FH sem eftir leikinn á tvo leiki til góða á Vesturbæjarliðið. Það hefðu þeir gert með sigri og náð fimm stiga forskoti á toppi deildarinnar.
Þeim varð þó ekki að ósk sinni þar sem leikar enduðu 1:1. KR-ingar voru allt annað en sannfærandi í gær en liðið hefur oft spilað þannig í sumar en samt náð að knýja fram sigur. Þannig var uppskriftin þó ekki í gær og neituðu Keflavíkingar að gefast upp og hefðu í raun getað stolið sigrinum með heppni og yfirvegun undir lokin.
Íslandsmeistarar síðasta sumars eru nú aðeins með þriggja stiga forskot á FH sem þarf aðeins að fá fjögur stig úr þeim tveimur leikjum sem þeir eiga til góða, til að komast upp fyrir KR. Gestirnir virkuðu þreyttir og lítt áhugasamir, sérstaklega í fyrri hálfleik. Þeir voru í raun heppnir að staðan var markalaus í hálfleik. Margir lykilleikmanna þurfa að gefa meira af sér til liðsins ef það ætlar að halda titlinum.
Sjá ítarlega umfjöllun um leik Keflavíkur og KR í Morgunblaðinu í dag.