„Þetta er stórleikur og það ríkir mikil eftirvænting hjá okkur vegna hans,“ segir Þorlákur Árnason, þjálfari Íslandsmeistara Stjörnunnar í knattspyrnu, en lið hans tekur á móti efsta liði úrvalsdeildar kvenna, Pepsi-deildarinnar, Þór/KA í undanúrslitum Borgunarbikarsins í Garðabæ í kvöld.
Flautað verður til leiks kl. 19.15. Á sama tíma hefst hin viðureign undanúrslitanna á milli KR og Vals á KR-vellinum. Valur á titil að verja í bikarkeppninni.
„Það skemmtilega við bikarkeppnina er að úrslit síðustu leikja í deildinni eða staðan í deildinni skiptir engu máli. Í bikarkeppninni hafa menn frítt spil,“ segir Þorlákur sem ætlar ekkert sérstaklega að nota tap Stjörnuliðsins, 2:1, á heimavelli fyrir Þór/KA í síðustu viku til þess að fylla sitt lið af baráttuhug fyrir viðureignina í kvöld.
„Við hugsum fyrst og fremst um okkur á þessari stundu. Við viljum komst í úrslitaleik bikarkeppninnar og munum leggja okkur fram um að ná því takmarki," segir Þorlákur sem verður með tvo nýja leikmenn í hópnum í kvöld, bandaríska miðjumanninn, Kate Daines og mexíkóska framherjann, Veronica Perez. „Þær verða í hópnum en það er ekki ljóst ennþá hvort þær verða í byrjunarliðinu. Ég mun ekki velja byrjunarliðið fyrr en á síðustu stundu vegna meiðsla í hópnum,“ segir Þorlákur.
Hann segir að ástæðan fyrir komu þessara tveggja kvenna til Stjörnunnar sé fyrst og fremst sú að mikið hafi verið um meiðsli í leikmannahópnum upp á síðkastið. Þar af leiðandi hafi verið nauðsynlegt að fá liðsstyrk.
„Perez er reynslumikill sóknarmaður sem hefur leikið með landsliði og þykir góður leikmaður. Daines fær það hlutverk að aðstoða okkur í varnarleiknum en þrír varnarmenn mínir hafa helst úr lestinni af ýmsum ástæðum í þessum mánuði og því rík þörf fyrir styrkingu á þeim vígstöðvum,“ segir Þorlákur.
„Leikir okkar við Þór/KA í ár hafa verið hörkugóðir og það verður gaman að takast á við lið Þórs/KA á heimavelli í kvöld,“ segir Þorlákur Árnason, þjálfari Íslandsmeistara Stjörnunnar í knattspyrnu.