Þór/KA Íslandsmeistari 2012

Íslandsmeistararnir fagna eftir að Geir Þorsteinsson formaður KSÍ afhenti þeim …
Íslandsmeistararnir fagna eftir að Geir Þorsteinsson formaður KSÍ afhenti þeim bikarinn. mbl.is/Þórir Tryggvason

Þór/KA var rétt í þessu að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu eftir stórsigur á Selfyssingum, 9:0, í næst síðustu umferð deildarinnar en leikurinn fór fram á Þórsvelli að vistöddum fjölmörgum áhorfendum. Þetta er fyrsti Íslandsmeistaratitill félagsins.

Sandra María Jessen og Katrín Ásbjörnsdóttir skoruðu 3 mörk hvor fyrir Þór/KA, Tahni Annis og Rebecca Johnson skoruðu sitt markið hvor og eitt markið var sjálfsmark.

90+3 Leiknum er lokið með 9:0 sigri Þórs/KA.

Þrjár mínútur eru eftir af leiknum skv. vallarklukkunni. Selfyssingar hafa ógnað tvisvar með langskotum á síðustu mínútum en hætta var svo sem ekki á ferðum.

83. Enn skora heimamenn; Katrín Ásbjörnsdóttir að fullkomna þrennuna, hún komst inn í sendingu aftur til markvarðarins og skoraði af öryggi. Staðan orðin 9:0.

78. Þór/KA var að bæta við áttunda markinu og staðan því orðin, 8:0. Sandra María Jessen skoraði markið af stuttu færi eftir undirbúning Kayle Grimsley.

72. Staðan er orðin 7:0. Aftur skoraði Katrín Ásbjörnsdóttir af stuttu færi, eftir sendingu Gígju Valgerðar Harðardóttur.

70. Tvöföld skipting hjá verðandi Íslandsmeisturum. Inná koma Arna Benný Harðardóttir og Elva Marý Baldursdóttir en úta fóru Rebacca Johnson og Lára Einarsdóttir.

69. Fyrsta spjaldið á loft. Valorie O'Brien í liði Selfoss fær að líta það gula.

68. Katrín Ásbjörnsdóttir þrumar í netið af stuttu færi eftir glæsilegan undirbúning Kayle Grimsley. Staðan orðin 6:0.

66. Selfyssingurinn Fransiska Jóney Pálsdóttir fer af velli en inn á kemur Karen Inga Bergsdóttir.

65. Heimamaðurinn Karen Nóadóttir fer af velli og Þórhildur Ólafsdóttir leysir hana af hólmi.

62. Guðmunda Brynja Óladóttir fékk gott færi til að laga stöðuna fyrir Selfoss en tókst ekki að skora.

61. 5:0 Norðankonur fengu að þessu sinni aðstoð frá leikmanni Selfoss en eftir aukaspyrnu Kyle Gimsley hrökk boltinn í leikmann Selfoss og þaðan í netið.

51. Nicole McClure markvörður Selfyssinga er að fara af velli vegna meiðsla. Dagný Pálsdóttir kemur í hennar stað. McClure varð fyrir meiðslum í fyrri hálfleik en harkaði þá af sér.

Akureyrarliðið, sem verður krýnt Íslandsmeistari eftir um það bil 40 mínútur, ræður lögum og lofum á vellinum.

49. 4:0 Rebecca Johnson skorar af stuttu færi eftir frábæra sendingu Katrínar Ásbjörnsdóttur.

46. Seinni hálfleikurinn er hafinn á Akureyri.

„Ég sé Akureyri...“ hljómar í hátalarakerfi Þórsvallarins. Óskar Pétursson syngur lag Bjarna Hafþórs Helgasonar sem samið var í tilefni 150 ára afmælis bæjarins, sem var fyrir fáeinum dögum. Nú styttist í að kvennalið Þórs/KA færi bænum frábæra afmælisgjöf, sjálfan Íslandsmeistaratitilinn í knattspyrnu.

Búið að flauta til hálfleiks á Akureyri og heimamenn í góðri stöðu. Óhætt er að fullyrða að liðið verður Íslandsmeistari. Ekkert á að geta komið í veg fyrir það.

Selfyssingar fengu tvö ákjósanleg færi undir lok hálfleiksins. Í fyrra skiptið lék Eva Lind Elíasdóttir laglega á nokkra heimamenn en skaut beint á Jones, og í seinna skiptið fór boltinn í stöng.

Liðlega hálftími er búinn og forysta heimamanna sanngjörn. Formaður KSÍ, Geir Þorsteinsson er á meðal áhorfenda, Íslandsbikarinn á svæðinu þó hann sé ekki sýnilegur, og verður afhentur í fyrsta skipti í höfuðstað Norðurlands ef heimamenn sigra.

39. 3:0 Þór /KA er að tryggja sér titilinn. Sandra María Jessen var aftur á ferðinni. Hún fékk sendingu innfyrir vörnina og skoraði af öryggi.

36. 2:0 Þór/KA er komið í 2:0. Sandra María Jessen skoraði með góðu skoti eftir góðan undirbúning frá Katrínu Ásbjörnsdóttur og Rebeccu Johnson.

29. 1:0 Meistaraefnin í Þór/KA komin með forystu. Tahnai Annis skorar af stuttu færi eftir frábæran undirbúning Kayle Grimsley á hægri kantinum.

27. Mjög gott færi hinum megin. Guðmunda Brynja Óladóttir skallar í stöng!

26. DAUÐAFÆRI heimaliðsins. Kayle Grimsley lék á varnarmann í teignum og skaut rétt framhjá a stuttu æri.

25. Þriðja langskot gestanna á stuttum tíma, en aldrei raunverulega hætta.

24. Katrín Ýr Friðgeirsdóttir með langskot að marki heimaliðsins en Jones ver auðveldlega.

Enn fjölgar áhorfendum. Sá tíundi héðan í frá inn á svæðið verður sá þúsundasti í dag!

20. Enn er hætta á ferðum við Selfossmarkið. Eftir glæsilegan undirbúning Johnson, Katrínar og Grimsley fær Sandra María boltann í miðjum vítateignum en þrumar rétt yfir markið.

18. Grimsley tekur horn frá hægri og hin sænska Rebecca Johnson á viðstöðulaust skot rétt yfir mark Selfyssinga.

Fyrsti stundarfjórðungurinn frekar rólegur, liðin eins og að þreifa fyrir sér, en heimamenn eru að ná völdum.

13. Dauðafæri heimaliðsins. Sandra María Jessen fékk sendingu inn fyrir vörnina, var ein gegn McClure markverði sem varði glæsilega og aftur í kjölfarið frá Grimsley. McClure liggur meidd eftir, en er staðin upp og virðist vera í lagi.

11. Hætta við mark gestanna, eftir góða sókn Þórs/KA, en hættunni bægt frá á síðustu stundu.

3. Fyrsta færið. Kayle Grimsley skýtur yir mark Selfyssinga úr þokkalegu færi.

0. Lið Þórs/KA og Selfoss eru að ganga út á Þórsvöllinn og Haraldur Ingólfsson vallarþulur er að kynna leikmenn. Rúmlega 600 áhorfendur eru mættir á völlinn að sögn teljara við hliðið.

0. Þór/KA - Selfoss, 0:0 (leikskýrsla)

0. Takist Þór/KA að vinna verður það áttunda liðið til að hampa Íslandsmeistaratitlinum. Liðin sem hafa orðið meistarar, í sviga fjöldi: Breiðablik (15), Valur (10), KR (6), FH (4), ÍA (3), Ármann (1), Stjarnan (1).

0. Þegar tveimur umferðum er ólokið er Þór/KA með fjögurra stiga forskot á ríkjandi meistara, Stjörnuna. Þór/KA hefur 39 stig, Stjarnan er með 35 stig og ÍBV er í þriðja sæti með 32 stig.

Leikmenn Þórs/KA hafa fagnað mörgum mörkum í sumar..
Leikmenn Þórs/KA hafa fagnað mörgum mörkum í sumar.. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert