„Þetta er auðvitað ný staða fyrir alla hérna. Víkingur [Ólafsvík] hefur aldrei komist í úrvalsdeild þannig að það yrði mjög gaman fyrir alla ef það gengi eftir. Maður finnur spennuna í bænum stigmagnast og núna er verið að hnippa í mann úti í búð og svona.
Maður reynir að láta það ekkert trufla sig og við erum ákveðnir í að fagna ekkert fyrr en allt er klárt. Við eigum tvo erfiða leiki eftir,“ sagði Guðmundur Steinn Hafsteinsson, fyrirliði Víkings Ólafsvík, við Morgunblaðið í gær.
Víkingur sendi ÍR niður í 2. deild um helgina með 1:0 sigri í Ólafsvík, þar sem Guðmundur Magnússon skoraði eina markið í fyrri hálfleik.
„Þetta var barátta út í gegn. Bæði lið gáfu tóninn strax á fyrstu mínútu og þannig hélst þetta allan leikinn. Þetta var alls ekki auðvelt þó að einhverjir hafi kannski haldið það fyrir leik, og úti á vellinum var þetta hnífjöfn barátta þó að þeir hafi ekki skapað sér nein færi,“ segir Guðmundur Steinn í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.
.