FH meistari í kvöld?

Leikmenn FH og Stjörnunnar kljást í fyrri viðureign liðanna í …
Leikmenn FH og Stjörnunnar kljást í fyrri viðureign liðanna í sumar.

Fagna FH-ingar Íslandsmeistaratitlinum í knattspyrnu á Stjörnuvellinum í Garðabæ í kvöld? Þeir fá tækifæri til þess því með því að leggja Stjörnumenn að velli í lokaleik 19. umferðarinnar er titillinn þeirra.

Eins dugar FH jafntefli ef KR nær ekki að vinna Breiðablik fyrr um daginn. Afar veik von KR um að verja titilinn er fólgin í því að vinna alla sína fjóra leiki og treysta á að FH fái bara eitt stig í síðustu fjórum umferðunum.

FH á einnig eftir að mæta ÍA á heimavelli, ÍBV á útivelli og loks Val á heimavelli á lokasprettinum.

Takist Stjörnumönnum að sigra eiga þeir sjálfir enn afar veika von um að skáka FH og hirða meistaratitilinn sjálfir á markatölu en til þess þyrfti þó margt skrýtið að gerast í síðustu þremur umferðunum því FH er með 20 marka forskot á Garðbæingana.

Leikur Stjörnunnar og FH hefst klukkan 19.15 en leikið er í flóðljósum á Stjörnuvellinum. Hinir fimm leikirnir fara fram klukkan 16 og 17 og verður því lokið áður en flautað verður til leiks í Garðabæ.

Fjórar umferðir á 14 dögum

Lokasprettur Íslandsmótsins hefst með þessum leikjum en síðustu fjórar umferðirnar eru leiknar á næstu 14 dögum. Baráttan í deildinni er þannig í hnotskurn:

*FH (41 stig), KR (31) og Stjarnan (29) eiga möguleika á Íslandsmeistaratitlinum. FH og KR eru örugg um Evrópusæti.

*Stjarnan (29), ÍBV (28), ÍA (28) og Breiðablik (26) eru í baráttu um tvö Evrópusæti.

*Valur (24), Keflavík (24) og Fylkir (23) gætu öll með frábærum endaspretti slegist um Evrópusæti, en líka dregist niður í fallbaráttuna.

*Fram (20) og Selfoss (18) eru annars í slag um að halda sér uppi en Grindavík (10) þarf eitt stykki meiriháttar kraftaverk til að forðast fall.

Leikir dagsins eru þessir:

16.00 ÍBV - Grindavík
17.00 KR - Breiðablik
17.00 Fylkir - Selfoss
17.00 Keflavík - Fram
17.00 ÍA - Valur
19.15 Stjarnan - FH

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert