Jón Gunnar Eysteinsson, leikmaður Fram, var rekinn af velli eftir 70 mínútur í 5:0 tapleik Safamýrarliðsins gegn Keflavík í Pepsideildinni í gær.
Jón Gunnar var ekki sáttur við þriðja mark Keflvíkinga, sem Magnús Sverrir Þorsteinsson skoraði, og spurði Jóhann Gunnar Guðmundsson aðstoðardómara spurningar í kjölfar þess.
„Ég spurði hann hvort hann væri þroskaheftur. Ég veit að ég á ekki að segja þetta en í hita leiksins segir maður ýmislegt,“ segir Jón Gunnar í samtali við fotbolti.net.
„Ég held að ég hefði getað sagt þetta við hvern sem er nema þennan línuvörð, hann er frekar viðkvæmur,“ bætir Jón Gunnar við.
Miðjumaðurinn öflugi verður í banni þegar Fram tekur á móti Stjörnunni á fimmtudaginn en auk hans verða Framarar án Alans Lowings, sem einnig fékk rautt, og Hlyns Atla Magnússonar, sem er ökklabrotinn.