Ögmundur: Ég get alveg tekið vítin

„Það er hlutverk manns í liðinu að verja. Maður stóð fyrir sínu í dag,“ sagði Ögmundur Kristinsson, markvörður Fram, sem varði eins og berserkur undir lok leiksins gegn ÍA í Pepsideildinni í dag þegar Framarar unnu 1:0 sigur.

Framarar voru talsvert betri aðilinn lengst af í leiknum en undir lokin fengu Skagamenn hvert færið á fætur öðru án þess þó að finna leiðina framhjá Ögmundi. Almarr Ormarsson fékk meðal annars vítaspyrnu sem hann klúðraði svo sjálfur, rétt eins og í síðustu umferð þegar Sam Tillen klúðraði víti sem hann fiskaði. Ögmundur sagðist í léttum tón tilbúinn að taka að sér vítaskyttuhlutverkið.

Með sigrinum komst Fram þremur stigum frá fallsæti auk þess sem liðið er með betri markatölu en Selfoss sem nemur sex mörkum. Ögmundur vill þó ekkert hugsa um annað en að vinna síðasta leik í stað þess að treysta á önnur úrslit.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert