Kvennalið Stjörnunnar gerði markalaust jafntefli gegn rússneska liðinu Zorkij í fyrri leik liðanna í 32 liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu á Stjörnuvellinum í kvöld.
Úrslitin eru frábær í ljósi þess að Stjarnan var manni færri eftir að fyrirliðinn Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir var rekin af velli fyrir tvö gul spjöld á 37. mínútu leiksins. Seinni leikurinn fer fram í Rússlandi eftir viku.
Nánari umfjöllun verður í Morgunblaðinu í fyrramálið en myndbandsviðtöl koma inná mbl.is seinna í kvöld.
Fylgst var með leiknum í beinni textalýsingu sem má lesa hér fyrir neðan.
Stjarnan - Zorkij 0:0 LL
Rautt spjald: Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, Stjarnan (37.)
90.+2 LEIK LOKIÐ, 0:0
90. Uppbótartími verður að minnsta kosti tvær mínútur.
90. Enn eitt dauðafærið hjá Zorkij. Skjóta framhjá upp við markið.
88. Þessa stundina eru 19 leikmenn af 21 inni í og við vítateig Stjörnunnar. Já, það er stórsókn hjá Zorkij.
87. STÖNG! Elena Morozova með þrumuskot fyrir utan teig sem fer í stöngina.
85. Þarna var tækifæri Stjörnunnar! Harpa fær sendingu inn fyrir og kemur skoti að marki en það er framhjá. Vel gert hjá Hörpu samt sem áður.
83. VÁÁÁÁÁ! Zorkij í þvílíku dauðafæri. Fyrst kemst Glódís Perla fyrir skot gestanna í teignum en boltinn berst á Conti sem nær skoti ein á móti Söndru en boltinn fer í stöngina. Stjarnan þrumar svo boltanum burt. Ótrúlegt að gestirnir hafi ekki komist yfir. Ashley Bares kemur inná.
82. Elena Morozava kemst í dauðafæri eftir skyndisókn Zorkij en skýtur yfir. Sandra varði reyndar boltann glæsilega en markspyrna var dæmd.
78. Þetta er mikið þolinmæðisverk hjá Stjörnunni að landa jafntefli hér einum færri. Heimastúlkur verða að halda einbeitingu. Markalaust jafntefli væri stórkostleg úrslit í ljósi aðstæðna.
71. Zorkij hefur ekki enn komist í gott færi heldur eru leikmenn liðsins meira í því að þruma á markið langt fyrir utan teig. Þau skot hafa ekki enn hitt á markið sem hentar Stjörnunni bara ágætlega.
65. Mikill darraðardans á teig Stjörnunnar þar sem gestirnir eru í hörkufæri en það er dæmd rangstaða sem betur fer.
62. Vira Dyatel með hörkuskot fyrir Zorkij fyrir utan teig en boltinn fer rétt framhjá markinu.
57. Zorkij er miklu meira með boltann en Stjarnan verst mjög vel. Þetta verður svona þar til flautað verður til leiksloka.
51. Inga Birna Friðjónsdóttir við það að sleppa ein í gegn eftir sendingu frá Hörpu. Hún nær ekki skoti á markið en vinnur horn.
46. Seinni hálfleikurinn er hafinn.
45.+3 HÁLFLEIKUR
43. Stjarnan reynir að ná áttum eftir brottreksturinn. Þær verða halda út hálfleikinn.
37. RAUTT! Skelfing fyrir Stjörnuna. Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir fær sitt annað gula spjald fyrir brot úti á velli. Ég trúi þessu ekki. Það var engin þörf á að brjóta í hvorugt skiptanna hjá Gunnhildi. Þetta er ótrúlega klaufalegt og fyrirliðinn er hreinlega að skemma fyrir sínu liði.
35. Þær rússnesku eru aðeins farnar að pirrast. Elena Medved fær gult spjald fyrir harkalegt brot.
32. Conti í dauðafæri fyrir gestina. Skallar boltann yfir af stuttu færi eftir sendingu frá vinstri.
30. Zorkij á að fá vítaspyrnu þegar ein fellur í teignum. Dómarinn er sem betur fer ekki með á nótunum þarna. Stjarnan fer í skyndisókn og fær hornspyrnu.
29. Zorkij fær fyrstu hornspyrnuna. Boltinn fellur fyrir hina ítölsku Conti sem skýtur yfir markið.
24. Flott sókn hjá Zorkij endar með skoti fyrir utan teig sem fer hátt yfir. Leikplan Stjörnunnar er að ganga fullkomlega upp.
21. Zorkij heldur boltanum vel en Stjarnan verst og beitir skyndisóknum. Gestirnir eru miklu meira með boltann en hafa enn ekki náð að skapa sér færi.
15. Bakvörðurinn Saratovceva þrumar á markið beint úr aukaspyrnunni en Sandra ver út við stöng.
14. Gunnhildur Yrsa fær gult spjald fyrir brot. Zorkij fær aukaspyrnu á hættulegum stað.
10. Harpa Þorsteinsdóttir kemur sér í gott færi hægra megin við markteiginn en skot hennar er varið út í teiginn. Því miður er engin Stjörnustúlka mætt til að hirða frákastið.
6. Það fer ekkert á milli mála að þetta Zorkij-lið getur spilað fótbolta. Það ætti svo sem ekkert að koma á óvart þar sem þetta er samsafn af landsliðskonum. Þetta verður erfitt fyrir Stjörnuna.
4. STÖNG! Gunnhildur Yrsa ekki langt frá því að koma Stjörnunni yfir. Vandræðagangur í vörn Zorkij og léleg hreinsun beint á Gunnhildi sem þrumar í varnarmann og þaðan í stöngina.
1. Leikurinn er hafinn.
0. Formlegheitin eru að hefjast. Liðin ganga út á völlinn undir UEFA-laginu. Það styttist í leikinn.
0. Það er mikill viðbúnaður á Samsung-vellinum í kvöld vegna þessa leiks. Hér verða liðin lesin upp á rússnesku og á ensku og enginn getur hreyft sig án þess að fá leyfi frá UEFA. Alvöru umgjörð.
0. Leikmenn Zorkij eru að bjóða upp á hressandi körfuboltanúmer í kvöld. Miðvörðurinn Janaína frá Brasilíu er til dæmis númer 55 og bakvörðurinn Saratovceva er númer 93.
0. Liðin eru mætt út á Stjörnuvöllinn að hita upp. Í liði Zorkij eru landsliðskonur frá Úkraínu sem mæta einmitt íslensku stelpunum okkar í umspili um sæti á EM í október. Þá er Zorkij einnig með einn leikmann frá Ítalíu, Pamelu Conti, og brasilíska stúlku að nafni Janaína.
0. Byrjunarliðin eru klár en þau má sjá hér neðst í textalýsingunni. Markamaskínan Ashley Bares er á varamannabekk Stjörnunnar í kvöld.
0. Stjarnan komst í Meistaradeildina með því að verða Íslandsmeistari í fyrsta skipti í sögu félagsins í fyrra. Liðið lenti í 3. sæti í Pepsi-deildinni í sumar en vann bikarinn með sigri gegn Val.
0. Rússneska liðið Zorkij var stofnað 2006 og var ekki lengi að vinna sig upp úr þriðju efstu deild þar í landi. Liðið var í þriðja sæti, 13 stigum á eftir næsta liði, þegar 10 umferðir voru eftir af deildarkeppninni í fyrra en unnu upp muninn, tryggðu sér annað sætið og komust þannig í Meistaradeildina.
0. Velkomin. Hér verður fylgst með þessum sögulega leik í Garðabænum í beinni textalýsingu.
Lið Stjörnunnar: (4-4-2) Mark: Sandra Sigurðardóttir. Vörn: Anna María Baldursdóttir, Glódís Perla Viggósdóttir, Anna Björk Kristjánsdóttir, Kristrún Kristjánsdóttir. Miðja: Edda María Birgisdóttir, Kate Deines, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, Ásgerður Stefanía Baldursdóttir. Sókn: Inga Birna Friðjónsdóttir, Harpa Þorsteinsdóttir.
Varamenn: Berglind Jónasdóttir, Veronica Perez, Helga Franklínsdóttir, Elva Friðjónsdóttir, Katrín Klara Emilsdóttir, Edda Mjöll Karlsdóttir, Ashley Bares.
Lið Zorkij: (4-4-2) Mark: Maria Zhamanakova. Vörn: Natalia Saratovceva, Janaína, Anastasia Kostyukova, Elena Medved. Miðja: Elena Morozova, Alla Lyshafay, Fatima Leyva, Vira Dyatel. Sókn: Maria Ruiz, Pamela Conti.
Varamenn: Nadezhda Mezakova, Ekaterina Sochneva, Elana Gorbacheva, Natalia Osipova, Anastasia Sionova, Nadezhda Levykina, Oksana Ryabinicheva.