Guðjón: Við ætlum beint upp aftur

"Ég er með samning til ársins 2014 og ætla mér að efna hann," sagði Guðjón Þórðarson þjálfari Grindvíkinga við mbl.is eftir jafntefli, 2:2, við Fylki í lokaumferð Pepsi-deildarinnar í knattspyrnu í dag.

Grindvíkingar voru fallnir fyrir nokkru en Guðjón ætlar sér að halda áfram með liðið og stefnir á að koma þeim aftur í efstu deild.

Í myndbandsviðtali hér að ofan er rætt við Guðjón um leikinn í dag og hann sagði í framhaldi af því þetta við mbl.is:

„Það eru óvissuþættir með ýmsa leikmenn sem eru núna í hópnum en það þarf að breyta þessu flæði af erlendum leikmönnum sem hefur verið mikið af hérna í Grindavík. Við ætlum okkur beint aftur upp í deild þeirra bestu. Nú mun ég endurskipuleggja starfið hér fyrir næsta ár. Ég ætla mér að byggja upp kjarna af íslenskum leikmönnum fyrir næsta tímabil. En allt mun þetta að einhverju leyti snúast um það hversu mikla peninga ég mun hafa úr að moða og ég mun fara yfir það með forráðamönnum deildarinnar.  

Það er alltaf gott að vera vitur eftir á og ef ég hefði viljað breyta einhverju núna þá hefði ég vissulega þurft að hafa þéttari hóp fyrir þetta tímabil. Við lentum í meiðslum með til dæmis Jósef Kristinn Jósefsson og svo Alexander Magnússon sem eru máttarstólpar í þessu liði, sterkir póstar sem þarna fara frá," sagði Guðjón Þórðarson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert