Guðmundur Þórarinsson, miðjumaðurinn ungi í liði Eyjamanna, fer á morgun til Noregs og æfir þar með knattspyrnuliðinu Sarpsborg næstu dagana.
„Hann er einn þeirra leikmanna sem við höfum skoðað á Íslandi. Við fengum tækifæri til að skoða hann betur og nýttum okkur það," segir framkvæmdastjóri Sarpsborg, Björge Öiestad, á vef félagsins.
Sarpsborg er í öðru sæti norsku B-deildarinnar og í harðri baráttu um að fara upp. Haraldur Björnsson er markvörður liðsins.
„Það er erfitt að meta styrk hans nákvæmlega í leik milli tveggja liða sem við þekkjum ekki. Nú getur hann séð og fundið hvernig er að vera í Sarpsborg og við fáum betri mynd af honum. Ég myndi ekki segja að við værum að taka hann til reynslu, heldur að kynnast honum sem persónu og gefa honum tækifæri til að kynnast Sarpsborg," sagði Öiestad.
Guðmundur er tvítugur og var í stóru hlutverki hjá ÍBV í sumar. Hann spilaði 21 af 22 leikjum liðsins í Pepsi-deildinni, alla í byrjunarliði, og skoraði tvö mörk. Hann lék jafnframt tvo af fjórum leikjum 21-árs landsliðsins á árinu og er gjaldgengur með því áfram í næstu keppni.