Knattspyrnumaðurinn Almarr Ormarsson hefur ákveðið að halda kyrru fyrir hjá Fram því hann skrifaði í dag undir nýjan tveggja ára samning við Safamýrarliðið. Þetta kemur fram á vef félagsins.
Samningur Almars við Framara rann út á dögunum og sýndu nokkur félög áhuga á að fá hann til liðs við sig en leikmaðurinn ákvað að gera nýjan samning við Fram.
Almarr, sem er 24 ára gamall, hefur leikið með Fram frá því hann kom til liðsins frá KA árið 2008 og hefur verið einn besti leikmaður liðsins undanfarin ár og lykilmaður í liði þeirra bláklæddu. Hann lék alla 22 leiki Fram-liðsins í Pepsi-deildinni í sumar og skoraði í þeim 6 mörk.
„Það er mikill kraftur sem hefur komið inn með nýjum forsvarsmönnum Knattspyrnudeildarinnar og ljóst að þar láta menn verkin tala. Það er ánægjuefni að menn hafa sýnt að þeir vilja styrkja leikmannahópinn og hafa svipaðar hugmyndir og ég í tengslum við það. Ég er mjög ánægður með að Almarr skyldi ákveða að spila áfram með okkur því hann er öflugur leikmaður sem er enn að þroskast og á vonandi eftir að sýna á næsta ári að hann sé einn af bestu leikmönnum deildarinnar,“ segir Þorvaldur Örlygsson, þjálfari Fram, á vef félagsins.
Framarar ætla sér greinilega stærri hluti á næstu leiktíð heldur en í ár en þeir voru í bullandi fallbaráttu en tókst eins og oft áður að bjarga sér á síðustu stundu. Fram hefur fengið Viktor Bjarka Arnarsson frá KR og Hauk Baldvinsson frá Breiðabliki og þá sendi liðið frá sér tilkynningu á dögunum um að skoski framherjinn Steven Lennon muni spila áfram með liðinu á næstu leiktíð.
Englendingurinn Samuel Tillen er hins vegar genginn til liðs við Íslandsmeistara FH.