Knattspyrnudeild Fram tilkynnti í dag að varnarmaðurinn Hlynur Atli Magnússon hefði verið settur á sölulista, þar sem hann hefði tjáð forráðamönnum deildarinnar að hann vildi komast burt frá félaginu.
„Stjórn deildarinnar sér því þann kost vænstan að auglýsa Hlyn Atla til sölu þar sem hann er samningsbundinn leikmaður hjá félaginu. Stjórnin harmar þessa niðurstöðu en virðir vilja leikmannsins,“ segir í tilkynningu Framara.
Hlynur Atli er 22 ára og uppalinn hjá Fram en hann lék 12 leiki með liðinu í Pepsi-deildinni í sumar og var óheppinn með meiðsli á tímabilinu. Hann á samtals að baki 52 leiki í efstu deild með félaginu.
Þá hefur Hlynur Atli sent Fótbolta.net yfirlýsingu þar sem hann segir að því miður hafi hann og Þorvaldur Örlygsson þjálfari Fram ekki átt samleið og því sjái hann ekki annað í stöðunni en að færa sig um set.