Tansaníumenn yfirbuðu ÍBV

Abel Dhaira í leik með ÍBV.
Abel Dhaira í leik með ÍBV. mbl.is/Árni Sæberg

Abel Dhaira, markvörðurinn litríki frá Úganda sem hefur leikið með ÍBV undanfarin tvö ár, er hættur hjá ÍBV og hefur samið við lið Simba í Tansaníu. Óskar Örn Ólafsson, formaður knattspyrnudeildar ÍBV, staðfesti þetta við Fótbolta.net í dag og sagði að ÍBV hefði ekki ráðið við það tilboð sem Tansaníumennirnir gerðu Dhaira.

ÍBV var í viðræðum við markvörðinn sem var samningslaus eftir tímabilið. „Við vorum búnir að vera í viðræðum við hann um nýjan samning og allt virtist vera í góðu gengi en þá kom þetta upp 1, 2 og 3. Næsta sem við vissum var tölvupóstur frá Tansaníu með beiðni um félagaskipti,“ sagði Óskar við Fótbolta.net.

Abel Dhaira, sem er 25 ára og á 12 landsleiki að baki fyrir Úganda, lék alla 22 leiki ÍBV í Pepsi-deildinni á þessu ári og á samtals 31 leik að baki með Eyjamönnum í deildinni.

ÍBV vantar þar með markvörð fyrir næsta tímabil og Óskar segir að Hermann Hreiðarsson, þjálfari Eyjamanna, sé að vinna í málinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert