Guðmundur Steinarsson í Njarðvík

Guðmundur Steinarsson með boltann í leik gegn Val.
Guðmundur Steinarsson með boltann í leik gegn Val. mbl.is/Árni Sæberg

Guðmundur Steinarsson, knattspyrnumaðurinn reyndi, hefur tekið þá ákvörðun að segja skilið við Keflvíkinga og færa sig um set en þó ekki langt. Guðmundur mun á næstu leiktíð leika með Njarðvíkingum í 2. deildinni ásamt því að sinna aðstoðarþjálfarastöðu liðsins.

Guðmundur staðfesti þetta við mbl.is í dag.

Það þarf varla að fjölyrða um hversu mikill liðsstyrkur felst í þessu fyrir Njarðvíkinga. Með Guðmundi kemur reynsla sem spannar 255 leiki í efstu deild og hefur hann skorað í þeim 81 mark. Hann hefur spilað með Keflavík með stuttum hléum frá 1996 og er fimmti leikjahæsti leikmaður efstu deildar frá upphafi.

Guðmundur, sem er 33 ára, er bæði leikja- og markahæsti leikmaður Keflavíkur í efstu deild með 244 leiki og 81 mark á þeim vettvangi. Hann lék einnig 11 leiki með Fram í deildinni á sínum tíma og spilaði um skeið með KA, Brönshöj í Danmörku og Vaduz frá Liechtenstein í efstu deild í Sviss. Guðmundur lék 3 A-landsleiki og 20 leiki með yngri landsliðum Íslands.

Njarðvíkingar fá þarna góðan liðsauka fyrir 2. deildar keppnina í sumar en þeir höfnuðu í 8. sæti deildarinnar á síðasta tímabili. Gunnar Magnús Jónsson þjálfar Njarðvíkurliðið og Guðmundur verður honum til aðstoðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert