Svíar unnu stórsigur á Íslendingum, 6:1, þegar þjóðirnar mættust í riðlakeppni Algarve-bikars kvenna í knattspyrnu í Albufeira í Portúgal í kvöld.
Svíar höfðu mikla yfirburði, ef upphafs- og lokamínútur leiksins eru undanskildar, og Þóra B. Helgadóttir kom í veg fyrir stærri sigur þeirra með því að verja nokkrum sinnum glæsilega í leiknum.
Kosovare Asllani skoraði tvö mörk fyrir Svía og þær Sara Thunebro, Lotta Schelin, Marie Hammerström og Susanne Moberg gerðu sitt markið hver.
Hólmfríður Magnúsdóttir skoraði mark Íslands og síðasta mark leiksins á 87. mínútu með hörkuskalla eftir hornspyrnu Eddu Garðarsdóttur.
Eftir tvær umferðir í riðlinum eru Bandaríkin með 6 stig, Svíþjóð með 4, Kína með 1 en Ísland er án stiga.
Í lokaumferðinni á mánudag leikur Ísland við Kína og það er hreinn úrslitaleikur um þriðja sætið í riðlinum, og hvort liðanna leikur um 5. sætið á mótinu.
Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is:
90. Leiknum er lokið með stórsigri Svía.
87. MARK - 1:6. Síðustu þrjár mínúturnar hafa verið besti kafli Íslands og hann skilar sér í glæsilegu marki. Edda Garðarsdóttir tekur hornspyrnu frá hægri og Hólmfríður Magnúsdóttir stekkur hæst allra á markteignum og skorar með þrumuskalla upp undir þverslána.
86. Rakel Hönnudóttir með glæsilegt skot rétt utan vítateigs, þrumar á markið með vinstri og Kristín Hammerström ver naumlega með því að blaka boltanum yfir þverslána.
85. Fanndís Friðriksdóttir fær besta færi Íslands í leiknum, ein gegn markverðinum inn undir markteig, en lyftir boltanum bæði yfir hana og þverslána!
83. Þóra B. Helgadóttir ver glæsilega frá Sofia Jakobsson sem var komin í dauðafæri, ein gegn henni í vítateignum.
81. Glódís Perla Viggósdóttir kemur inn á fyrir Katrínu Jónsdóttur.
71. Elísa Viðarsdóttir kemur inn á fyrir Hallberu Guðnýju Gísladóttur.
64. MARK - 0:6. Enn eitt markið. Lotta Schelin kemst að endamörkum hægra megin og rennir boltanum út í markteiginn. Susanne Moberg rennir sér á hann og skorar af harðfylgi.
63. Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir kemur inn á fyrir Katrínu Ómarsdóttur og Fanndís Friðriksdóttir kemur í staðinn fyrir Hörpu Þorsteinsdóttur.
56. Katrín Ómarsdóttir með skot að sænska markinu eftir hornspyrnu en hún hittir boltann illa og hann fer langt framhjá.
48. Boltinn liggur aftur í marki Íslands eftir sendingu Göransson frá vinstri. Susanne Moberg virðist hinsvegar slá hann í netið með hendi og fær gula spjaldið. Aðstoðardómari flaggaði eftir að dómarinn hafði bent á miðju!
47. MARK - 0:5. Ekki byrjar það gæfulega. Antonia Göransson brunar inn í vítateig Íslands, upp að endamörkum og rennir út á markteiginn þar sem Kosovare Asslani sendir hann í netið.
46. Seinni hálfleikur er hafinn.
46. Hólmfríður Magnúsdóttir kemur inn á fyrir Söndru Maríu Jessen og Mist Edvardsdóttir kemur í staðinn fyrir Sif Atladóttur.
45+1. HÁLFLEIKUR og staðan er heldur betur svört fyrir íslenska liðið sem hefur verið yfirspilað á löngum köflum í leiknum. Sigurður Ragnar Eyjólfsson þarf heldur betur að ræða við sína leikmenn í hléinu.
45. MARK - 0:4. Þetta stefnir í ljótar tölur. Fyrirgjöf frá vinstri, Marie Hammarström, tvíburasystir markvarðarins, er fyrst í boltann rétt utan markteigs og kemur honum framhjá Þóru og í vinstra hornið.
43. MARK - 0:3. Þriðja markið er komið. Kosovare Asllani leikur íslenskan varnarmann grátt, sleppur inn í vítateiginn og á fast skot, beint á Þóru í markinu, en Lotta Schelin fylgir á eftir og skorar af stuttu færi. Sænska liðið er einfaldlega miklu sterkari aðilinn í þessum leik.
36. Og enn er það Þóra sem kemur í veg fyrir að Svíar komist þremur mörkum yfir. Hún ver hreint ótrúlega frá Lottu Schelin af markteig, eftir hornspyrnu sænska liðsins.
35. Þóra er enn á réttum stað þegar hún lokar vel á Antoniu Göransson nálægt endamörkum í vítateignum og ver skot hennar.
34. Dagný Brynjarsdóttir með skot frá vítateig eftir ágæta sókn Íslands en ekki nógu fast og Kristin Hammerström ver nokkuð örugglega.
29. Stórglæsileg tilþrif hjá Þóru í marki Íslands þegar hún ver tvisvar frá Lottu Schelin úr dauðafæri. Schelin kemst upp að vítateig en Þóra kemur langt út úr markinu og ver skot hennar. Schelin fær boltann aftur og þrumar á markið en Þóra kemur höndum á boltann og slær hann yfir.
25. Lotta Schelin reynir að lyfta boltanum yfir Þóru í íslenska markinu af um 30 metra færi en boltinn fer vel yfir markið.
20. Góð tilraun íslenska liðsins. Katrín Ómarsdóttir með hörkuskot af 20 m færi og Kristin Hammarström í sænska markinu þarf að hafa sig alla við til að verja, alveg úti við stöng, og slær boltann frá.
14. MARK - 0:2. Ótrúlegt mark Svía. Sara Thunebro lætur vaða að marki Íslands af um 30 metra færi, af vinstri kantinum, og sendir hann beint upp undir markvinkilinn, í stöngina þar og inn! Algjörlega óverjandi en staðan er orðin ansi slæm.
10. MARK - 0:1. Svíar ná forystunni eftir slæm mistök í íslensku vörninni. Antonia Göransson kemst inn í vítateiginn, Þóra B. Helgadóttir ver skot hennar glæsilega með fótunum, en Kosovare Asllani fylgir á eftir og skorar.
9. Nokkuð lífleg byrjun á leiknum á báða bóga. Ísland átti góðar sóknir á upphafsmínútunum og tvö skot að sænska markinu.
1. Leikurinn er hafinn í Albufeira.
Fjórar breytingar eru á byrjunarliði Íslands í dag. Katrín Jónsdóttir, Edda Garðarsdóttir, Rakel Hönnudóttir og Sandra María Jessen koma inn í liðið en á bekkinn fara Glódís Perla Viggósdóttir, Sara Björk Gunnarsdóttir, Fanndís Friðriksdóttir og Hólmfríður Magnúsdóttir.
Lið Íslands: Þóra B. Helgadóttir - Dóra María Lárusdóttir, Sif Atladóttir, Katrín Jónsdóttir fyrirliði, Hallbera Guðný Gísladóttir - Edda Garðarsdóttir, Dagný Brynjarsdóttir, Katrín Ómarsdóttir - Rakel Hönnudóttir, Harpa Þorsteinsdóttir, Sandra María Jessen.
Lið Svíþjóðar: Kristin Hammarström - Lina Nilsson, Emma Berglund, Nilla Fischer, Sara Thunebro - Antonia Göransson, Caroline Seger fyrirliði, Lisa Dahlkvist, Marie Hammarström - Kosovare Asllani, Lotta Schelin.