Lagerbäck: Góðir möguleikar í Ljubljana

Lars Lagerbäck landsliðsþjálfari karla í knattspyrnu segir að Ísland eigi fyrir höndum erfiðan leik gegn góðu liði Slóvena í Ljubljana næsta föstudag, enda þótt það hafi ekki byrjað vel í þessari undankeppni HM.

„Þeir eru vonsviknir með sína frammistöðu og þessvegna skiptu þeir um þjálfara, þannig að nú er talsvert spurningamerki hvernig þeir muni spila gegn okkur," sagði Lagerbäck eftir að hafa kynnt lið sitt á blaðamannafundi í dag.

Hann kvaðst vera bjartsýnn á góðan árangur í Ljubljana og sagði að ef liðið myndi spila vel og spila leikinn rétt, væru góðir möguleikar á að sækja þangað þrjú stig.

Lagerbäck valdi Sölva Geir Ottesen í landsliðshópinn, enda þótt hann hefði ekkert spilað með FC Köbenhavn lengi, en valdi ekki Indriða Sigurðsson, sem er reyndastur af þeim miðvörðum sem leikið hafa með landsliðinu að undanförnu.

Aðspurður um þetta kvaðst Svíinn hafa átt langt spjall við Sölva sem væri búinn að fara í gegnum gott undirbúningstímabil með FC Köbenhavn. Hann væri reyndur og gott að hafa hann í hópnum í svona leik, en það yrði síðan að koma í ljós á æfingum með liðinu hvort Sölvi yrði í byrjunarliðinu.

Hvað Indriða varðaði sagði Lagerbäck að hann væri með fjóra miðverði sem væri mjög svipaðir að styrkleika og hefði þurft að velja á milli þeirra. Að þessu sinni hefði Indriði ekki  verið valinn og það hefði verið mjög erfið ákvörðun að skilja hann eftir, en hann ætti jafna möguleika og aðrir á að vera valinn í hópinn á nýjan leik.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert