Glæsimörk Gylfa tryggðu sigurinn í Ljubljana

Ísland vann glæsilegan útisigur á Slóveníu, 2:1, í undankeppni HM 2014 í kvöld en Gylfi Þór Sigurðsson skoraði bæði mörkin. Það fyrra var líklega með þeim flottari í undakeppninni.

Fyrri hálfleikurinn var frekar illa spilaður af beggja hálfu. Hraðinn var enginn og íslensku strákarnir héldust illa á boltanum. Slóvenar komu einu skoti á markið í fyrri hálfleik og það lá í netinu á 34. mínútu.

Sölvi Geir Ottesen átti þá misheppnaða hreinsun en boltinn fór beint á Milivoje Novakovic sem skoraði með fallegu skoti í markhornið fjær.

Lars Lagerbäck gerði breytingu strax í hálfleik en hann tók þá Alfreð Finnbogason af velli fyrir Jóhann Berg Guðmundsson. Jóhann fór út á vinstri kantinn og Gylfi Þór var færður fram með Kolbeini.

Íslenska liðið hafði ekki skapað sér nein færi af viti þegar það fékk aukaspyrnu á 55. mínútu um 30 metrum frá marki. Gylfi Þór Sigurðsson gerði sér lítið fyrir og skoraði ótrúlegt mark, beint úr aukaspyrnunni.

Gylfi var svo aftur á ferð á 78. mínútu þegar hann fékk sendingu inn á teiginn frá Eiði Smára Guðjohnsen. Hann lék á varnarmann og skoraði með fallegu skoti framhjá Samir Handanovic í marki Slóvena.

Heimamenn gerðu hvað þeir gátu til að jafna metin en Hannes Þór Halldórsson sá við öllum þeirra skottilranum. Íslensku strákarnir fögnuðu svo gífurlega í leikslok þegar gríski dómarinn flautaði til leiksloka.

Þetta er aðeins í annað skiptið í sögunni sem Ísland vinnur tvo mótsleiki í röð en Ísland lagði Albaníu að velli, 2:1, í síðasta útileik en þar skoraði Gylfi Þór einnig úr aukaspyrnu.

Því miður fékk Gylfi gult spjald í uppbótartíma þegar hann reyndi að brjóta á leikmanni Slóvena í skyndisókn. Gylfi fékk gult spjald fyrir að fara úr treyjunni eftir að hann skoraði gegn Albaníu og verður hann því í banni þegar Slóvenar koma í heimsókn á Laugardalsvöllinn í júní.

Ísland er með níu stig í riðlinum eftir fimm leiki. Noregur og Albanía eigast við þessa stundina í Osló og er staðan þar, 0:0. Fari svo að liðin skilji jöfn verður Ísland í öðru sæti.

Lið Slóveníu: Samir Handanovic; Bojan Jokic, Branko Ilic, Cesar Bostjan, Miso Brecko; Rene Krhin, Aleksander Radosavljevic, Jasmin Kurtic; Zlatan Ljubljankic, Valter Birsa; Milivoje Novakovic. 

Lið Íslands: (4-4-2) Hannes Þór Halldórsson; Birkir Már Sævarsson, Sölvi Geir Ottesen, Ragnar Sigurðsson, Ari Freyr Skúlason; Birkir Bjarnason, Aron Einar Gunnarsson, Emil Hallfreðsson, Gylfi Þór Sigurðsson; Alfreð Finnbogason, Kolbeinn Sigþórsson.
Varamenn: Gunnleifur Gunnleifsson, Ögmundur Kristinsson, Arnór Sveinn Aðalsteinsson, Hólmar Örn Eyjólfsson, Hallgrímur Jónasson, Ólafur Ingi Skúlason, Helgi Valur Daníelsson, Jóhann Berg Guðmundsson, Steinþór Freyr Þorsteinsson, Eiður Smári Guðjohnsen. 

Slóvenía 1:2 Ísland opna loka
90. mín. Jasmin Kurtic (Slóvenía) á skot sem er varið +1. Langskot sem Hannes ver.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka