David James: Er mjög spennandi

Enski markvörðurinn David James skrifaði nú undir kvöld undir samning við ÍBV um að spila með liðinu í sumar auk sem hann verður aðstoðarmaður Hermanns Hreiðarssonar þjálfara liðsins. James segist mjög spenntur fyrir þessu nýja verkefni en þessi litríki, markvörður sem verður 43 ára gamall á árinu, á glæsilegan feril að baki.

„Ég hef verið atvinnumaður í 26 ár en nú tekur við nýr kafli á mínum ferli sem ég er mjög spenntur fyrir. Ég vildi spila með ÍBV á móti Víkingi Ólafsvík í fyrrakvöld en Hermann vildi það ekki þar sem ég var ekki búinn að skrifa undir samning. Það er komnar um átta vikur síðan ég spilaði leik síðast en ég er góðu líkamlegu formi. Ég hef aldrei spilað með liði utan Englands og það verður nýtt fyrir mig,“ sagði James við mbl.is eftir að hafa skrifað undir samning við Eyjamenn.

,,Ég er ekki í vafa um að reynsla mín mun koma liðinu til góða. Ég verð líka Hermanni innan handar með þjálfunina ég er mjög spenntur fyrir því. Það eru sex vikur síðan Hermann kom að máli við mig og viðraði þá hugmynd að ég kæmi til Íslands að spila. Ég tók strax vel í þetta en ég þurfti auðvitað að huga að ýmsum málum áður en ég gat tekið endanlega ákvörðun,“ sagði James, sem heldur til Englands á morgun en er svo væntanlegur aftur til Eyja seinni partinn í apríl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka