Helgi Sigurðsson, fyrrverandi landsliðsmaður sem var annar aðstoðarþjálfara knattspyrnuliðs Fram og jafnframt í leikmannahópi liðsins, er hættur hjá Safamýrarliðinu. Þetta staðfesti hann við Fótbolta.net rétt í þessu.
Helgi kom til Framara í vetur eftir að hafa verið í röðum Víkings í Reykjavík síðustu ár. Hann sagði við Fótbolta.net að sér þætti réttast að stíga til hliðar með Þorvaldi Örlygssyni og engin leiðindi væru í því. Helgi kveðst ekki vera búinn að ákveða um framhaldið hjá sér en hann hefur komið við sögu í tveimur leikjum Framara í Pepsi-deildinni í sumar.