Dagný: Fundum ekki leiðina í gegn

„Þetta er mjög svekkjandi, það munaði ekki svona miklu á liðunum og 3:0-tap er allt of stórt,“ sagði Valskonan Dagný Brynjarsdóttir eftir að Valur féll úr leik í 8-liða úrslitum Borgunarbikarsins með 3:0-tapi fyrir Stjörnunni að Hlíðarenda.

„Við vorum meira með boltann en fundum ekki glufurnar í sókninni. Þær eru með frábæran markvörð og góða miðverði, og við fundum ekki leiðina í gegnum þær,“ sagði Dagný.

Valur átti erfitt uppdráttar framan af Íslandsmótinu en hefur nú unnið sig upp í 4. sæti Pepsideildarinnar. Dagný vill ekki meina að tímabilið sé mikil vonbrigði hingað til.

„Já og nei. Við vorum að púsla liðinu saman seint og fengum nokkra stórleiki þarna strax í byrjun móts. Við hefðum getað gert betur þar en seinni umferðin er núna eftir og við komum bara sterkari til baka þar,“ sagði Dagný sem er í íslenska landsliðshópnum sem heldur á EM. Hún kveðst finna fyrir smávægilegum meiðslum í mjöðm en segist verða orðinn klár í slaginn fyrir sitt fyrsta stórmót.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert