Landsliðskonan Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir varð fyrir miklu áfalli fyrr í mánuðinum þegar hún sleit krossband í hné í þriðja sinn á ferlinum. Gunnhildur var á æfingu með liði sínu, Arna-Björnar, í Noregi þegar hún meiddist 13. júní, degi eftir að hún var valin í landsliðið fyrir æfingaleik við Danmörku ytra. Það var síðasti leikur Íslands fyrir Evrópumótið í knattspyrnu sem hefst í júlí.
„Auðvitað var maður að vonast eftir því að komast á mótið en það er aldrei hægt að vita með það,“ sagði Gunnhildur við Morgunblaðið í gærkvöld en hún var á meðal áhorfenda þegar hennar gamla lið, Stjarnan, sló út Val í bikarkeppninni.
Eins og áður segir er Gunnhildur orðin ansi reynd þegar kemur að krossbandsslitum en hún hefur tvívegis slitið krossband í vinstra hné. Að þessu sinni gaf hægra hnéð sig.
„Hnéð er það gott að ég get farið í aðgerð strax en það er allt uppbókað hér heima svo ég er að kanna möguleikann á því að gera þetta úti. Ég reikna svo alla vega með því að taka endurhæfinguna þar,“ sagði Gunnhildur sem er með samning við Arna-Björnar út árið. Hún reiknar þó ekki með því að spila fótbolta aftur fyrr en í mars eða apríl á næsta ári. Aðspurð hvort hún verði þá enn í Noregi sagði Gunnhildur ómögulegt að segja til um það núna.
„Þetta er vissulega svekkjandi. Hlutirnir voru að ganga ágætlega og maður var byrjaður að fíla sig ágætlega,“ sagði hún.