KR-ingurinn Jónas Guðni Sævarsson var ekki ósáttur við spilamennsku KR-inga í Laugardalnum í kvöld en sagði að liðið hefði hæglega getað nýtt fleiri marktækifæri en raunin varð. KR tapaði fyrsta leik sínum í sumar 2:1 þegar liðið mætti Fram í 11. umferð Pepsí-deildarinnar.
KR-ingar eru nýkomnir heim frá Belfast þar sem liðið vann Glentoran 3:0 í forkeppni Evrópudeildarinnar. Jónas vildi ekki skella skuldinni á þreytu eða leikjaálagið. „Ég vil ekki meina að það sé ástæðan fyrir tapinu. Vissulega er mikil keyrsla á okkur og það má vel vera að það hafi spilað eitthvað inn í. Fyrst og fremst fannst mér við spila ágætlega en það sem klikkaði var að við nýttum ekki færin okkar. Ég hefði viljað sjá okkur aðeins þéttari en stundum var svolítið langt á milli okkar,“ sagði Jónas Guðni þegar mbl.is spjallaði við hann að leiknum loknum.
Leikurinn var opinn og fjörugur. Jónas var sammála því að leikurinn hefði verið góður og sagði ekki hafa verið um slaka frammistöðu að ræða. „Já, ég held það. Laugardalsvöllurinn var glæsilegur og veðrið bauð upp á flottan fótbolta. Mér fannst bæði lið sýna það. Fram er með hörkugott lið og eru með leikmenn sem sækja hratt og eru klókir. Á heildina litið fannst mér við vera með leikinn í okkar höndum þannig lagað en við klikkuðum á síðasta þriðjungi vallarins. Ýmis atriði í ákvarðanatöku eins og það að reyna að gefa boltann í stað þess að skjóta í ágætum færum urðu okkur að falli í dag,“ sagði Jónas Guðni Sævarsson sem sjálfur átti gott skot í þverslána á marki Fram á 59. mínútu eða í stöðunni 1:0 fyrir Fram.