Blikar eru komnir í 3. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar í knattspyrnu með frábærum sigri á Sturm Graz í Austurríki í dag, 1:0. Fyrri leikur liðanna fór 0:0. Ellert Hreinsson skoraði sigurmarkið í fyrri hálfleik.
Blikar mæta Aktobe frá Kasakstan í 3. umferðinni en það lið sló út norska 1. deildarliðið Hödd með samanlagt 2:1-sigri. Aktobe mætti FH fyrir fjórum árum og vann það einvígi 6:0 samanlagt.
Þetta er stórkostlegur árangur hjá Blikum sem börðust af lífi og sál allan leikinn í dag.
Nichlas Rohde fékk gott færi til að koma Blikum yfir eftir rúmlega hálftíma leik en skot hans var vel varið. Í kjölfarið fengu heimamenn svo algjört dauðafæri en Gunnleifur Gunnleifsson kom út úr markinu og varði frá Robert Beric, en Gunnleifur var mjög öruggur í leiknum.
Sigurmark Ellerts Hreinssonar kom á 39. mínútu. Nichlas Rohde fór illa með varnarmann Sturm vinstra megin í vítateignum og renndi svo boltanum þvert fyrir markið þar sem Ellert náði að renna sér á boltann og skora.
Heimamönnum gekk afar illa að skapa sér færi gegn sterkri vörn Blika í seinni hálfleiknum og þau skot sem komu á markið varði Gunnleifur. Róðurinn þyngdist fyrir Blika 10 mínútum fyrir leikslok þegar Elfar Árni Aðalsteinsson fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt en það kom ekki að sök.
Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.
Lið Sturm Graz: Gratzei, Todorovski, Vuyadinovich, Madl, Weber, Hadzic, Kainz, Offenbacher, Klem, Szabics, Beric.
Varamenn: Focher, Dudic, Ehrenreich, Kainz, Beichler, Hölzi, Djuricin
Lið Breiðabliks: Gunnleifur Gunnleifsson, Þórður Steinar Hreiðarsson, Sverrir Ingi Ingason, Rene Troost, Kristinn Jónsson, Finnur Orri Margeirsson, Tómas Óli Garðarsson, Andri Rafn Yeoman, Elfar Árni Aðalsteinsson, Nichlas Rohde, Ellert Hreinsson.
Varamenn: Arnór Bjarki Hafsteinsson, Guðjón Pétur Lýðsson, Viggó Kristjánsson, Olgeir Sigurgeirsson, Árni Vilhjálmsson, Páll Olgeir Þorsteinsson, Atli Fannar Jónsson.