Fram eða Breiðablik í úrslitaleikinn?

Fram og Breiðablik mætast í dag.
Fram og Breiðablik mætast í dag. mbl.is/Styrmir Kári

Það ræðst í dag hvort það verður Fram eða Breiðablik sem mætir Stjörnunni í úrslitaleik bikarkeppni karla í fótbolta, Borgunarbikarnum, laugardaginn 17. ágúst, en félögin mætast í undanúrslitum keppninnar á Laugardalsvellinum í dag klukkan 16.

Stjarnan vann bikarmeistara tveggja síðustu ára, KR-inga, eftir framlengingu, 2:1, í hinum undanúrslitaleiknum í Garðabænum á fimmtudagskvöldið.

Framarar hafa sjö sinnum orðið bikarmeistarar, síðast árið 1989, en Breiðablik vann bikarinn í fyrsta og eina skiptið til þessa árið 2009. Þá unnu Blikar einmitt sigur á Fram í vítaspyrnukeppni á Laugardalsvellinum eftir að liðin skildu jöfn, 2:2, í úrslitaleiknum.

Lið Breiðabliks kemur nánast beint úr löngu ferðalagi frá Kasakstan þar sem það tapaði, 1:0, fyrir Aktobe í fyrri leik liðanna í 3. umferð forkeppni Evrópudeildar UEFA á fimmtudaginn. Framarar hafa hinsvegar átt vikufrí, eða síðan þeir töpuðu 3:0 fyrir Fylki í Pepsi-deildinni síðasta sunnudag.

Fram og Breiðablik hafa mæst einu sinni áður á Laugardalsvellinum í sumar en liðin skildu jöfn þar í Pepsi-deildinni, 1:1, þann 30. júní. Jordan Halsman kom Frömurum yfir en Olgeir Sigurgeirsson jafnaði fyrir Blika sex mínútum fyrir leikslok.

Breiðablik er í 4. sæti deildarinnar, ellefu stigum á undan Frömurum sem eru í 7. sætinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert