Fyrstur Stjörnumanna í 100 leiki

Daníel Laxdal í leik með Stjörnunni.
Daníel Laxdal í leik með Stjörnunni. mbl.is/Golli

Daníel Laxdal, fyrirliði Stjörnunnar, varð í gærkvöld fyrsti leikmaður karlaliðs félagsins til að spila 100 leiki í efstu deild í knattspyrnu þegar hann lék með Garðabæjarliðinu gegn Val á Hlíðarenda.

Daníel, sem er 26 ára gamall varnarmaður, hefur leikið 100 af 102 leikjum Stjörnumanna frá því félagið kom á ný í efstu deild eftir níu ára hlé árið 2009. Hann missti af einum leik fyrsta sumarið og af einum snemma á síðasta tímabili.

Fyrr í sumar setti Daníel nýtt leikjamet hjá Stjörnunni í efstu deild þegar hann fór framúr Birgi Sigfússyni, sem lék 95 leiki fyrir félagið á árunum 1990 til 2000 en  Garðbæingar léku samtals í sex ár í deildinni á þeim tíma.

Halldór Orri Björnsson er líka kominn framúr Birgi og er næstleikjahæstur með 98 leiki, og þá lék Jóhann Laxdal, bróðir Daníels, sinn 95. leik í gærkvöld og er því jafn Birgi í 3.-4. sætinu.

Halldór er markahæstur Stjörnumanna í deildinni frá upphafi og gerði sitt 43. mark fyrir félagið í gærkvöld. Næstur á eftir honum er Garðar Jóhannsson með 28 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert