Gunnleifur vonsvikinn eftir 300. leikinn

Gunnleifur Gunnleifsson landsliðsmarkvörður og leikmaður Breiðabliks lék sinn 300. deildaleik á Íslandi í kvöld þegar liðið gerði 2:2-jafntefli við ÍA á Akranesi. „Við erum mjög vonsviknir með að fá bara eitt stig í dag,“ sagði Gunnleifur eftir leikinn.

Gunnleifur á nú að baki 165 leiki í efstu deild og 135 í öðrum deildum. Upphaflega átti Gunnleifur að leika 300. leikinn sinn gegn á sunnudagskvöld gegn KR en sá leikur taldi ekki þar sem hann var flautaður af og honum frestað vegna alvarlegra höfuðmeiðsla Elfars Árna Aðalsteinssonar. Þó fjórir dagar séu liðnir frá því atviki má ætla að það hafi haft einhver áhrif á undirbúning Blika fyrir leikinn í kvöld.

„Við unnum vel úr málunum sem lið og félag, og vorum alveg klárir í þennan leik í dag. Við vorum eins vel undirbúnir og hægt er að vera,“ sagði Gunnleifur. Blikar hafa ekki tapað leik í deildinni síðan í maí og eru áfram í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn.

„Við höldum okkur ótrauðir við þetta markmið en það er allt of dýrt að tapa niður svona forskoti. Við þurfum að læra af þessum leik,“ sagði Gunnleifur.

Nánar er rætt við Gunnleif í meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka