Mikil ábyrgð á 18 ára herðum

Þorsteinn Már Ragnarsson og Björn Daníel Sverrisson eigast við í …
Þorsteinn Már Ragnarsson og Björn Daníel Sverrisson eigast við í fyrri leik KR og FH í sumar. mbl.is/Ómar

Einn af allra stærstu leikjum sumarsins verður í Frostaskjólinu í dag kl. 18 þegar KR mætir Íslandsmeisturum FH. Með sigri komast Vesturbæingar aftur á toppinn þrátt fyrir að eiga tvo leiki til góða á FH-inga. FH á harma að hefna eftir 4:2-tapið í Krikanum fyrr í sumar þar sem Róbert Örn Óskarsson markvörður fékk rauða spjaldið snemma leiks.

Kastljósið verður hins vegar á öðrum markverði þegar flautað verður til leiks á morgun. Hinn 18 ára gamli Rúnar Alex Rúnarsson mun nefnilega spila í marki KR í sínum fyrsta byrjunarliðsleik í meistaraflokki.

Hann hefur reyndar fengið nasaþefinn af því, fyrst með því að koma inn á gegn ÍBV eftir að Hannes Þór Halldórsson fékk rautt spjald, og svo á sunnudagskvöld þegar hann stóð í markinu í fjórar mínútur gegn Breiðabliki. Sá leikur var sem kunnugt er flautaður af og frestað, sem hafði það í för með sér að Hannes tæki út bannið sitt í stórleiknum á morgun. Gegn Blikum var markvarðaþjálfarinn Guðmundur Hreiðarsson, sem orðinn er 52 ára, á varamannabekknum og svo verður sjálfsagt einnig í dag.

Utan stórleiksins hefjast þrír leikir kl. 17 í dag. Valsmenn fá Þór í heimsókn en þeir halda enn í vonina um Evrópusæti þó að sjálfsagt gráti þeir sigur Fram í bikarúrslitaleiknum um liðna helgi. Þar með dugar 4. sætið ekki til Evrópusætis, eins og það hefði gert ef Stjarnan hefði unnið bikarinn og endað í einu af efstu þremur sætunum.

Þór er kominn á bólakaf í fallbaráttuna enda ekki fagnað sigri síðan í byrjun júlí, og fari allt á versta veg verður liðið komið í fallsæti á mánudagskvöld.

Fylkir tekur á móti ÍBV en Eyjamönnum hefur gengið afleitlega að undanförnu og aðeins fengið 2 stig af síðustu 18 mögulegum. ÍBV er eiginlega í þeirri stöðu að þurfa ekki að hafa áhyggjur af neinu, en geta heldur ekki vonast til neins spennandi. Liðið mun enda á bilinu 4.-10. sæti.

Ótrúleg sveifla hefur orðið í gengi Fylkis og þrátt fyrir að sigurhrinu liðsins hafi lokið á Akureyri í síðasta leik hafa Árbæingar nú leikið sjö leiki í röð án taps, og komið sér nokkuð þægilega langt frá fallsætunum.

Víkingur Ólafsvík mætir Breiðabliki fyrir vestan í leik þar sem Blikar hafa alls ekki efni á að misstíga sig eftir að hafa misst niður 2:0-forskot gegn botnliði ÍA í fyrrakvöld. Víkingum hefur gengið ágætlega að undanförnu en Keflvíkingum betur og því er Víkingur kominn í fallsæti. Liðið á næst leiki við FH og KR og gæti því misst næstu lið enn lengra frá sér á næstunni.

Umferðinni lýkur á annað kvöld þegar Stjarnan mætir ÍA og Fram fær Keflavík í heimsókn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert