KR-ingar geta stigið enn stærra skref í átt að 26. Íslandsmeistaratitli sínum í knattspyrnu karla og Stjarnan getur komist upp fyrir FH í annað sætið í Pepsi-deildinni og þar með komið sér í góða stöðu að ná Evrópusæti í fyrsta skipti í sögu félagsins.
10. umferð Pepsi-deildarinnar lýkur í kvöld þegar KR og Valur eigast við í Frostaskjólinu klukkan 18 og á sama tíma eigast Breiðablik og Stjarnan við á Kópavogsvelli en þessum leikjum var frestað í sumar vegna þátttöku KR og Breiðabliks í Evrópukeppninni.
KR náði undirtökunum í baráttunni um titilinn með því að leggja Íslandsmeistara FH að velli um síðustu helgi og takist þeim að leggja Valsmenn að velli í kvöld komast lærisveinar Rúnars Kristinssonar í ansi vænlega stöðu en KR er með 37 stig í efsta sæti, FH er með 36 en hefur spilað tveimur leikjum meira og Stjarnan er með 34 og hefur spilað einum leik meira en KR.
Breiðablik þarf svo sannarlega á öllum stigunum að halda í leiknum gegn Stjörnunni. Blikarnir eru í fjórða sæti, fimm stigum á eftir Garðbæingum en eiga leik til góða. Breiðablik hefur farið illa að ráði sínum í síðustu tveimur leikjum en heimsóknir Kópavogspilta á Vesturlandið skiluðu þeim aðeins tveimur stigum því Blikarnir gerðu jafntefli við ÍA og Víking Ólafsvík.
Með sigri koma Stjörnumenn sér í ansi vænlega stöðu í baráttunni um að ná Evrópusæti, sem Garðabæjarliðið þráir svo heitt. Það er slæmt fyrir Stjörnumenn að Veigar Páll Gunnarsson verður fjarri góðu gamni þar sem hann er í leikbanni og þá er Kennie Chopart ekki leikfær vegna meiðsla. Atli Jóhannsson og Michael Præst eru hins vegar klárir í slaginn eftir að hafa tekið út leikbann.