„Frammistaða liðsins var mjög döpur á öllum sviðum,“ sagði Ólafur Kristjánsson þjálfari Breiðabliks eftir 4:1-tapið gegn Fylki í Pepsideildinni í kvöld.
Fylkir skoraði strax eftir 40 sekúndna leik og komst í 2:1 á 8. mínútu leiksins.
„Það er ekkert rothögg en það var kannski í takti við það hvernig við komum inn í leikinn. Mér fannst allt í lagi hvernig menn brugðust við fyrsta markinu, við jöfnuðum fljótt aftur, en eftir það gliðnuðum við bara og molnuðum hverjir frá öðrum gegnum allan leikinn,“ sagði Ólafur. Breiðablik er nú fimm stigum á eftir FH og Stjörnunni en á leik við topplið KR til góða. Möguleikinn á að ná Evrópudeildarsæti minnkaði því talsvert í kvöld.
„Það er stórfurðulegt að vinnuframlagið sé svona og að það skuli ekki takast betur að spila innan þess ramma sem við setjum upp fyrir leikinn. Það er sama hvar við berum niður, frammistaða allra var slök í dag og við þurfum að spyrja okkur hvernig í ósköpunum stendur á því,“ sagði Ólafur.
Nánar er rætt við Ólaf í meðfylgjandi myndskeiði.