„Þetta var ógeðslega gaman, fullur völlur og frábær stemning. Fjögur stig voru markmiðin í þessari viku og við náðum því,“ sagði Gylfi Þór Sigurðsson eftir 2:1-sigurinn á Albaníu í undankeppni HM í knattspyrnu í kvöld.
Gylfi varð að fara af velli um tíma eftir slæmt spark frá Lorik Cana, fyrirliða Albaníu, en hristi það af sér og sagði löppina í ágætu lagi.
„Hún er svolítið marin og bólgin en eftir 2-3 daga verður hún örugglega í lagi,“ sagði Gylfi sem kunni vel við sig á miðjunni með Aroni Einari Gunnarssyni í dag.
„Hann er svo duglegur og ég held að fólk sjái það ekki alveg. Hann er að vinna fullt af tæklingum á meðan að ég fæ leyfi til að fara fram á við og spila boltanum. Við náum mjög vel saman,“ sagði Gylfi.
Ísland er nú í 2. sæti síns riðils, fimm stigum á eftir Sviss sem virðist ætla að vinna riðilinn en aðeins stigi á undan Slóveníu og tveimur stigum á undan Noregi.
„Þetta er langt frá því að vera búið. Það eru tveir mjög erfiðir leikir eftir,“ sagði Gylfi. Nánar er rætt við Hafnfirðinginn í myndbandinu hér að ofan.